Þann 17. júní 1995 var minnisvarði um týnda afhjúpaður og vígður í kirkjugarðinum á Húsavík við hátíðlega athöfn að viðstöddum mörgum ættingjum þeirra sem týnst höfðu og ekki fengið legstað í kirkjugarði, heldur í hinni votu gröf hafs eða vatna.
Athöfnin hófst með því að Aðalsteinn Á. Baldursson ávarpaði viðstadda og rakti sögu og aðdraganda þessa máls. Ingibjörg Jósefsdóttir, öldruð ekkja, afhjúpaði svo minnisvarðann og sóknarpresturinn, séra Sighvatur Karlsson, flutti hugvekju og bæn og vígði minnisvarðann.
Á minnisvarðann eru 17 koparplötur með nöfnum þeirra, sem vitað er að týnst hafi á síðustu öld úr Húsavíkurprestakalli og nágrenni.
Sérstök flöt var á sínum tíma hönnuð í kirkjugarðinum fyrir minnisvarðann og í framhaldi af því boðaði sóknarnefnd, formaður Björn G. Jónsson, Laxamýri, til fundar ættingja þeirra sem týnst höfðu og ekki fundist. Á þeim fundi voru kosin í sérstaka framkvæmdanefnd Aðalsteinn Á. Baldursson, Guðrún Haraldsdóttir, Júlíana Dagmar Erlingsdóttir og Hjörtur Tryggvason, kirkjugarðsvörður og sá nefndin um alla framkvæmd er viðkom minnisvarðanum.
Framkvæmdin var að mestu leyti fjármögnuð af ættingjum með frjálsum framlögum og gekk söfnunin afar vel og er minnisvarðinn öllum til mikils sóma sem að framkvæmdinni komu. Ekki má gleyma þætti fyrirtækja og einstaklinga sem gáfu vinnu sína við að koma minnisvarðanum upp í kirkjugarðinum.
Í tilefni af Sjómannadeginum í ár færðu aðstandendur týndra Húsavíkursókn og Hollvinasamtökum Húsavíkurkirkju að gjöf kr. 801.037,- til kaupa á tveimur bekkjum og hellulögn við minnisvarðann um týnda samtals kr. 740.000,- . Í hlut Hollvinasamtaka Húsavíkurkirkju falla kr. 61.037,-.