Kalla eftir aðkomu SSNE

Með bréfi til Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) sem varð til á síðasta ári við sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings kallar Framsýn stéttarfélag eftir aðkomu SSNE að framtíð áætlunarflugs til Húsavíkur. Bréfið fór frá Framsýn í morgun.

Undanfarið hefur Framsýn vakið athygli á því hvað er að gerast í áætlunarflugi á Íslandi. Félagið hefur sérstakar áhyggjur af því, að svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni út af markaðinum. Ernir hefur m.a. haldið úti áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Það var mikið gæfuspor þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur vorið 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi þess að búa við góðar samgöngur. Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með hléum. Þar á meðal var Flugfélag Íslands sem lagði af  flug til Húsavíkur og beindi farþegum þess í stað í gegnum Akureyri, þyrftu þeir á flugsamgöngum að halda við Reykjavík. Eðlilega voru menn ekki ánægðir með þessa ákvörðun flugfélagsins á sínum tíma enda um mikla þjónustuskerðingu að ræða fyrir flugfarþega um Húsavíkurflugvöll.

Nú er svo komið að nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti nú þegar ákveðið hef­ur verið að samþætta rekst­ur Air Ice­land Conn­ect og Icelanda­ir. Starf­semi flugfé­lag­anna tveggja hefur verið sam­einuð, svo sem flugrekstr­ar­svið, sölu- og markaðsmál. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni.

Vitað er að stjórnvöld hafa verið með beina ríkisstyrki varðandi ákveðnar flugleiðir; Þórshöfn, Vopnafjörður, Grímsey, Gjögur, Bíldudalur, Höfn og Vestmannaeyjar auk þess að koma myndarlega að stuðningi við Icelandair með ríkisábyrgð upp á um 16 milljarða, sem er eftir samþættingu við dótturfélagið Air Ice­land Conn­ect með áætlunarferðir til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja.

Eftir því sem best verður séð, er eina áætlunarflugið sem ekki er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar, flugleiðin Reykjavík-Húsavík með Flugfélaginu Erni sem skekkir verulega samkeppnisstöðuna.

Því miður virðist sem ábendingar Samkeppniseftirlitsins sem fram koma í umsögn eftirlitsins við frumvörp er varða ríkisaðstoð til handa Icelandair séu að raungerast.

Í umsögninni kemur skýrt fram að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni. Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru þegar komnar fram nú þegar Icelandair og Air Iceland Connect hafa sameinað krafta sína auk þess sem Norlandair er hluti af samsteypunni þar sem Flugfélag Íslands ehf. á eignarhlut í Norlandair svo vitnað sé í ársreikninga félagsins 2019.

• Innanlandsflug. Air Iceland Connect nýtur mikilla yfirburða í innanlandsflugi. Á stærstu flugleiðum innanlands, þ.e. á milli Reykjavíkur og Akureyrar, Reykjavíkur og Egilsstaða og Reykjavíkur og Ísafjarðar hefur Air Iceland Connect því sem næst notið einokunarstöðu allt frá árinu 2000 þegar Íslandsflug hætti samkeppnisflugi á leiðunum. Aðrir keppinautar í áætlunarflugi innanlands sinna að mestu leyti öðrum leiðum sem eru mun minni að umfangi. Ljóst er að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni eða aðra sem hygðust hasla sér völl í innanlandsflugi.

Flugfélagið Ernir á því miður ekki lengur roð í þennan sameinaða risa sem drottnar nú nánast yfir öllu áætlunarflugi á Íslandi með ríkisstyrkjum og/eða ríkisábyrgð í boði stjórnvalda.

Staðan er augljós, með útspili stjórnvalda hefur verið þrengt verulega að rekstri Flugfélagsins Ernis sem haldið hefur úti áætlunarflugi á markaðslegum forsendum til Húsavíkur.

Eins og áður hefur komið fram í þessu bréfi stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeirri andstöðu sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi.

Hvað það varðar hafa forsvarsmenn Framsýnar þegar fundað með forsætisráðherra og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi áhyggjur félagsins á fákeppni í áætlunarflugi á Íslandi auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart. Ráðherrarnir tóku heilshugar undir áhyggjur Framsýnar varðandi fákeppnina sem væri að myndast í innanlandsfluginu.

Framsýn stéttarfélag telur eðlilegt að SSNE komi að málinu af fullum þunga og beiti sér fyrir því að stuðningur við flug til Húsavíkur verði með sambærilegum hætti og er til allra annara flugvalla á Íslandi þar sem haldið er úti reglubundnu áætlunarflugi. Ekki þarf að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess fyrir atvinnulífið í Þingeyjarsýslum að flugsamgöngur haldist áfram milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ekki síst þess vegna er aðkoma SSNE að málinu afar mikilvæg segir í bréfi Framsýnar til SSNE.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn gagnrýndi harðlega á sínum tíma ákvörðun sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum að sameina Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Eyþingi undir heitinu SSNE. Framsýn hafði ákveðnar áhyggjur af því að ákveðinn slagkraftur færi úr héraðinu við sameininguna. Nú verður forvitnilegt að sjá hvernig SSNE bregst við áhyggjum Framsýnar varðandi framtíð áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Vitað er að ákveðin öfl hafa talað fyrir því að áætlunarflugi til Húsavíkur verði hætt. Við því þarf að bregðast af fullum krafti.