Þó líði ár og öld – stórafmæli í dag

Í dag fögnum við 110 ára sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum en húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín þann 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur. Sömu leið ákváðu verkakonur á Húsavík að ganga er þær nokkrum árum síðar, eða 28. apríl 1918 stofnuðu með sér eigið félag undir nafninu Verkakvennafélagið Von. Er tímar liðu taldi verkafólk við Skjálfanda hag sínum betur borgið í einni öflugri fylkingu með sameiningu félaganna vorið 1964 sem fékk heitið Verkalýðsfélag Húsavíkur.

Saga verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum er um margt mjög merkileg. Allt frá fyrstu tíð höfðu bæði Verkamannafélagið og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaupgjaldsmálum félagsmanna. En þeim var jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, s.s. með samtryggingarsjóðum, hagkvæmri verslun, samhjálpar- og menningarstarfi fyrir félagsmenn og afskiptum af málefnum bæjarfélagsins. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna. Eftir sameiningu verkakvenna- og karla árið 1964, þar sem allt almennt verkafólk fór fram undir sama merki jókst slagkraftur félagsins til muna.

Síðan þá hafa enn frekari sameiningar orðið innan hagsmunasamtaka verkafólks í Þingeyjarsýslum og starfsemin vaxið og dafnað. Þann 1. maí 2008 sameinuðust Verkalýðsfélag Raufarhafnar,  Verkalýðsfélag Öxarfjarðar,  Verslunarmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Húsavíkur endanlega undir heitinu  Framsýn stéttarfélag og spannar

félagssvæðið um 18% landsins, allt frá Vaðlaheiði í vestri að Raufarhöfn í austri.

Rúmlega öld er liðin frá því að frumherjarnir stigu fram og sýndu það áræði að stofna með sér félag sem hafði það að markmiði að gæta hagsmuna verkafólks. Það þurfti kjark í þá daga fyrir fátækt fólk og skuldugt að rísa upp og krefjast bættra kjara af vinnuveitendum sínum. Eitt af því sem okkur ber að varðveita er saga þessa fólks sem markaði sporin og lagði þann grunn sem við byggjum á í dag.

Strax í upphafi snerust helstu umræðuefni á fundum félaganna um eflingu atvinnulífs, mannlífs, vöxt og viðgang svæðisins. Með tímanum rótfestist sú áhersla í starfi þeirra og allar götur síðan hafa þau, og síðar Framsýn- stéttarfélag, haft mikil áhrif á alla umræðu um atvinnu- og kjaramál enda notið mikillar virðingar, ekki bara meðal félagsmanna heldur alls samfélagsins svo vitnað sér í orð þáverandi forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar sem lét þessi orð falla á 100 ára afmælishátíð Framsýnar þegar hann lauk lofsorði á starfsemi og málflutning félagsins.

„Rödd Framsýnar sem netmiðlar og ljósvakinn varpa um þjóðartorgið, hefur verið rómsterk og áhrifarík og á stundum verið sú samviska launafólks sem á þurfti að halda þegar miklar ákvarðanir voru í vændum. Á slíkum stundum þarf sterka rödd til að flytja skoðanir fólksins á vinnustöðunum. Það er rödd fólksins sem þarf að heyrast. Í þessum efnum hefur verkalýðsfélagið ykkar á síðustu misserum og árum verið til fyrirmyndar. Það er merkilegt hlutverk og mikilvægt verkefni fyrir félag sem hefur náð þessum virðulega aldri en er samt ungt í anda og athöfn, að verða þannig, í krafti sinnar eigin getu og upplýsingatækninnar, áhrifaríkur málsvari fyrir launafólk í landinu öllu.“   

Sem fyrr ber það hæst í starfi Framsýnar, sem það tók í arf frá forverum sínum þar sem helstu áhersluatriðin snúa að vexti og viðgangi atvinnulífsins auk samhjálpar, sem nú er rekin í mynd lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og margvíslegra félagslegra réttinda og fræðslustarfs. Félagið hefur verið virkur þátttakandi og jafnvel verið frumkvæðisaðili að ýmsum meiriháttar atvinnufyrirtækjum í Þingeyjarsýslum, fyrirtækjum sem skipt hafa sköpum fyrir viðgang svæðisins.  Þráðurinn til upphafsins hefur ekki slitnað. Velferð félagsmanna og samfélagsins alls er enn þann dag í dag það markmið sem félagið setur í öndvegi.

Á síðari áratugum hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf verkalýðsfélaga orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Hreyfing launafólks í Þingeyjarsýslum hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Framsýn hefur vaxið og eflst og starfsemi þess orðið margþættari með tímanum. Á fjórða þúsund félagsmanna er innan félagsins sem í dag er talið eitt af öflugustu stéttarfélögum landsins enda hafa umsvif þess aldrei verið meiri en um þessar mundir, félagsmönnum til hagsbóta. Verulega hefur fjölgað í félaginu á umliðnum árum enda eftirsóknarvert að vera félagsmaður.  Það kraftmikla starf sem fram fer á vegum félagsins er ekki síst því að þakka að mikill áhugi er meðal félagsmanna að starfa fyrir félagið, sem er virðingarvert og ber að þakka sérstaklega fyrir.

Á tímamótum sem þessum er full ástæða til að óska félagsmönnum og Þingeyingum öllum til hamingju með afmælið, það er árangursríka verkalýðsbaráttu vinnandi fólks í 110 ár.

Baráttan fyrir fullum jöfnuði og almennu jafnrétti mun fylgja okkur áfram inn í framtíðina auk þess sem við komum til með að þurfa að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja breyttu samfélagi. Við höfum mikið verk að vinna hvað þessa þætti varðar og aðra þá sem stuðlað geta að því að gera samfélagið okkar enn betra fyrir komandi kynslóðir. Rödd Framsýnar verður án efa áfram rómsterk og áhrifarík um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags