Gamli og nýi tíminn

Þegar fréttaritari heimasíðu stéttarfélaganna átti leið um Hafnarfjarðarhöfn í dag máti sjá tvö öflug fiskiskip í höfninni sem tengjast hingað norður. Annars vegar  var það Þorsteinn ÞH 115 sem hefur alla tíð heitið þessu nafni, fyrst EA 15, því næst GK 15 og nú síðustu árin ÞH 115. Útgerð og eigandi er útgerðarfyrirtækið Önundur ehf. á Raufarhöfn. Bát­ur­inn er einn af minni Svíþjóðarbát­un­um svo­nefndu, en hann var smíðaður árið 1946 og er elsti bát­ur flot­ans sem gerður er út til fisk­veiða. Þorsteini ÞH hefur alla tíð verið vel við haldið og var glæsilegur í Hafnarfjarðarhöfn eftir góða vertíð.

Við næsta bryggjukant í Hafnarfirði mátti sjá Jökul ÞH 299 sem  GPG Seafood ehf. á Húsavík festi nýlega kaup á og verður gerður út frá Raufarhöfn. Skipið hét áður Nanok og er ísfisk- og frystiskip. Það er smíðað árið 1996 og er 45×11 metrar á lengd og breidd. Um er að ræða hreina viðbót við skipaflota GPG og til þess ætlað að auka hráefnisöflun fyrirtækisins. GPG starfrækir flaka- og hrognavinnslu á Raufarhöfn, saltfiskvinnslu og fiskþurrkun á Húsavík og dótturfélagið Þórsnes í Stykkishólmi starfrækir salfiskvinnslu í Stykkishólmi og útgerð.  Fyrir réttu ári keypti GPG Halldór fiskvinnslu á Bakkafirði. Eftir því sem best er vitað mun Jökull sigla til heimahafnar á Raufarhöfn á næstu vikum en unnið er að alls konar viðgerðum um borð í skipinu sem hafa tekið lengri tíma en áætlað var í fyrstu. Til viðbótar má geta þess að GPG er að láta smíða nýjan línubát. Reiknað er með að nýi línu­bát­urinn verði af­hent­ur á árinu. Um er að ræða plastbát sem verður 13,25 metr­ar að lengd, 5,5 metr­ar að breidd og vega 29,9 brútt­ót­onn. Báturinn verður mjög glæsilegur í alla staði. Sem betur fer er mikill kraftur í starfsemi GPG Seafood, ekki síst á Húsavík og Raufarhöfn.

Þorsteinn ÞH á sér langa og farsæla útgerðarsögu frá Raufarhöfn og fleiri höfnum á Íslandi þar sem báturinn hefur verið gerður út á veiðar.

Gamli og nýi tíminn, Þorsteinn ÞH 115 frá Raufarhöfn sem er elsta skipið sem gert er út á fiskveiðar á Íslandi og nýjasta skipið í flotanum hér norðan heiða, Jökull ÞH 299 sem gerður verður út frá Raufarhöfn en skipið er væntanlegt til heimahafnar á næstu vikum eftir því sem best er vitað.