Formaður Þingiðnar fundaði með Byggðaráði

Formaður Þingiðnar, Jónas Kristjánsson, var kallaður fyrir Byggðaráð Norðurþings í gær til að ræða stöðuna í atvinnumálum hjá iðnaðarmönnum ásamt framkvæmdastóra félagsins. Fundurinn fór vel fram og skiptust menn á skoðunum. Í máli Jónasar kom fram að almennt er staðan mjög góð hjá iðnaðarmönnum sérstaklega þó hjá trésmiðum innan félagsins. Töluvert hefur verið um nýbyggingar og viðhaldsverkefni á svæðinu. Að sjálfsögðu munaði um stórar framkvæmdir á okkar mælikvarða eins og framkvæmdir Búfesti á Húsavík, nýja fjölbýlishúsið við Útgarð og framkvæmdir fiskeldisfyrirtækja í Kelduhverfi og Öxarfriði. Allt væru þetta mannfrek verkefni. Frekari verkefni væru í farvatninu sem kæmu til með að skipta verulega miklu máli á næstu árum hvað byggingariðnaðinn varðaði s.s. bygging á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík. Jafnframt væri til skoðunar að reisa húsnæði undir þaraverksmiðju, vonandi næði sú hugmynd fram að ganga. Þá kæmi til með að lifna yfir öðrum iðnaði þegar starfsemi PCC á Bakka færi aftur á stað í vor. Jónas sagði bjart yfir iðnaðarmönnum um þessar mundir enda mikið að gera og lítið sem ekkert atvinnuleysi meðal þeirra ólíkt öðrum atvinnugreinum.