Kalla eftir virðingu og afturköllun á kjaraskerðingum

Starfsmenn Leikskólans á Grænuvöllum komu saman til fundar síðdegis á þriðjudaginn til að bregðast við ákvörðun Norðurþings um að skerða kjör starfsmanna með fordæmalausum hætti. Fundurinn var haldinn í samstafi við stéttarfélög starfsmanna. Það er Framsýn, STH og Félag leikskólakennara. Nánast allir starfsmenn leikskólans sem falla undir skerðingarnar tóku þátt í fundinum eða um 45 starfsmenn auk þriggja formanna þeirra stéttarfélaga sem tengjast málinu. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu var fundinum streymt beint til þeirra starfsmanna sem völdu að vera heima og taka þátt í fundinum þannig.

Ekki þarf að taka sérstaklega fram að starfsmönnum er verulega brugðið við þessa ákvörðun sveitarfélagsins enda um verulegar kjaraskerðingar að ræða. Þá kom skýrt fram hjá fundarmönnum að þeir telja sig upplifa mikið virðingarleysi gagnvart störfum þeirra hjá sveitarfélaginu. Ekki síst á tímum Covid þegar starfsmenn hafa staðið vaktina á erfiðum tímum til að börn geti notið menntunar og þörfum sveitarfélagsins, atvinnulífsins og foreldra hefur verið sinnt af starfsmönnum eftir bestu getu. Spurt var; Hvað dettur þeim næst í hug varðandi það að skerða kjörin okkar? Hvar eru þakkirnar fyrir okkar störf?

Hópur starfsmanna tók til máls á fundinum sem var líflegur og litaður af óánægju starfsmanna. Eftir umræður var meðfylgjandi yfirlýsing samþykkt samhljóða með handauppréttingu og undirskrift fundarmanna, þar sem skorað er á Norðurþing að draga þessar fordæmalausu kjaraskerðingar til baka.

Krafa stéttarfélaga starfsmanna er einnig sú að sveitarfélagið verði við kröfum starfsmanna og afturkalli boðaðar kjaraskerðingar sem eru langt frá því að teljast eðlilegar. Með þessum gjörningi Norðurþings eru farnar allar launahækkanir sem samið var um í Lífskjarasamningunum fyrir Leikskólakennara og að mestu fyrir þá starfsmenn sem ekki eru með formlega menntun í uppeldisfræðum. Því er óumdeilanlegt að þessar aðgerðir leiða til kaupmáttarrýrnunar þeirra starfsmanna sem njóta þessara greiðslna í dag.

YFIRLÝSING
Norðurþing dragi til baka fordæmalausar kjaraskerðingar

Starfsmenn Leikskólans Grænuvalla sem jafnframt eru félagsmenn í Félagi leikskólakennara, Framsýn og Starfsmannafélagi Húsavíkur mótmæla harðlega þeirri ákvörðun Norðurþings að segja upp hluta af þeirra ráðningarkjörum.

Í uppsagnarbréfi til starfsmanna kemur fram að ákveðið hafi verið að segja upp fastri yfirvinnu sem starfsmenn hafa fengið fram að þessu og tengist sveigjanlegum neysluhléum á vinnutíma. Samkomulag þetta hefur verið við líði til fjölda ára. Í samþykkt bæjarráðs 23. mars 2000 er tekið fram;

Starfsfólk á leikskólum Húsavíkur sem matast inn á deildum með börnum í hádeginu fái greiddar 11 klst. Í yfirvinnu á mánuði miðað við að matast sé með börnum alla virka daga.“

Almennt eru starfsmenn á leikskólum, sem ekki hafa lokið formlegri menntun sem leikskólakennarar, með á bilinu 360.000 kr. til 400.000 kr. á mánuði m.v. fullt starf. Kjaraskerðingin hjá þessum hópi starfsmanna nemur góðum mánaðarlaunum á ársgrundvelli eða að jafnaði um 450.000 krónum sem er gjörsamlega óásættanlegt.  Leikskólakennarar eru með mánaðarlaun frá um 500.000 kr. til 700.000 kr. m.v fullt starf eftir starfsreynslu og fjölda ECTS eininga umfram B.ed. eða sambærilegt bakklárpróf. Sé horft til allra stétta innan leikskólans er skerðingin á bilinu 420.000 kr. upp í um 700.000 kr. á ársgrundvelli, það er mismunandi eftir starfsstéttum.

Um áramót 2020/2021 verða 65.000 kr. af lífskjarasamningum komin til framkvæmda frá undirritun samningsins. Uppsögnin nú á ráðningakjörum starfsmanna leiðir því til þess hjá hluta  starfsmanna að þrátt fyrir 65.000 kr. kjarasamningsbundna hækkun lækka einstaklingar í launum. Það er óumdeilt að þessar aðgerðir leiða til kaupmáttarrýrnunar þeirra starfsmanna sem njóta þessara greiðslna. Aðgerðin er því harkaleg.

Benda má á að  samkvæmt lögum  95/2019  um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eiga 2/3 hlutar þeirra er sinna uppeldi og menntun í leikskóla að hafa leyfisbréf til kennslu. Sveitarfélagið uppfyllir ekki það skilyrði laganna og með uppsögn á þessum ráðningakjörum starfsmanna er ljóst verið er að vinna gegn því að ná markmiðum laganna.

Uppsögn á kjörum starfsmanna getur í reynd verið uppsögn á ráðningarsamningum þeirra ákveði þeir að una ekki uppsögn á þessum ráðningarkjörum sínum.  Uppsagnirnar geta því í eðli sínu jafngilt hópuppsögn og ekki er vitað til þess að Norðurþing hafi tilkynnt Vinnumálastofnun og hlutaðeigandi aðilum að sveitarfélagið hafi ákveðið að ráðast í hópuppsagnir á starfsmönnum Leikskólans Grænuvalla.

Hér með er þess krafist að sveitarfélagið Norðurþing dragi þegar í stað til baka boðaðar uppsagnir á ráðningarkjörum starfsmanna sem eru fordæmalausar og beint að kvennastéttum.