Ríkissáttasemjari í heimsókn á Húsavík

Sá ágæti maður, Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, kom í opinbera heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna á föstudaginn. Tilefni heimsóknarinnar var að fræðast um starfsemi aðildarfélaga skrifstofunnar, Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur. Auk þess tók hann fund með forstjóra PCC á Húsavík, Rúnari Sigurpálssyni.  Að sjálfsögðu var Aðalsteini vel tekið og ekki var annað að heyra en að hann hefði verið ánægður með heimsóknina.

Þess má geta að Aðalsteinn Leifsson tók við embætti ríkissáttasemjara 1. apríl 2020. Skipun Aðalsteins í embættið er til fimm ára.

Aðalsteinn lauk MBA námi frá Edinburgh Business School / Herriot Watt University í október 2004. Auk þess hefur hann lokið MSc námi frá London School of Economics (LSE). Þá stundaði hann doktorsnám í samningatækni hjá Grenoble École de Management samhliða vinnu á árunum 2016-2018.

Frá því í janúar 2014 hefur Aðalsteinn starfað sem framkvæmdastjóri hjá EFTA, sem hefur starfstöðvar í Genf, Brussel og Luxemburg. Samhliða störfum sínum hjá EFTA hefur Aðalsteinn verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hefur meðal annars kennt samningatækni og lausn deilumála í MBA-námi.

Aðalsteinn hefur verið aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara frá því í byrjun árs 2019 en þá tók hann þátt í sáttamiðlun vegna kjarasamningagerðar á almennum vinnumarkaði. Hann hefur veitt embættinu liðsinni og verið til ráðgjafar auk þess að sitja fundi með samningsaðilum.

Aðalsteinn hefur því víðtæka þekkingu á samningamálum og er höfundur bókar um samningatækni. Auk fræðilegrar þekkingar hefur hann reynslu af þátttöku í samningaviðræðum, kennslu í samningatækni, ráðgjöf við samningsaðila og aðstoð við deiluaðila við að bæta samskipti.

Eins og meðfylgjandi mynd ber með sér áttu nafnarnir góðar samræður en þess má geta til fróðleiks að Aðalsteinn Leifsson er ættaður frá Bakka við Húsavík.