Hlutabótaleiðin framlengd – Framsýn kallar eftir virkri vinnumiðlun

Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði, tekjutengdar atvinnuleysisbætur fást greiddar í sex mánuði og laun í sóttkví verða greidd til áramóta. Þetta var niðurstaða ríkisstjórnarfundar sem fór fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag, skv. heimildum visir.is.

Hlutabótaleiðin átti að renna út nú um mánaðamótin og hefur verið sterkt ákall frá verkaklýðshreyfingunni um áframhald hennar. Með því að framlengja hana verður fyrirtækjum gert kleift að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og viðhalda þar með nauðsynlegri þekkingu til að geta blásið til sóknar á ný þegar betur betur árár. Var það niðurstaða fundarins að framlengja leiðina um tvo mánuði eða til 1. nóvember.

Þá ræddi ríkisstjórnin einnig á fundi sínum tekjutengdar atvinnuleysisbætur en heildarsamtök launafólks hafa kallað eftir því að tekjutengdar atvinnuleyisbætur verði hækkaðar og tekjutengda tímabilið framlengt. Var ákveðið að framlengja tekjutengdar bætur úr þremur mánuðum í sex.

Þá ákvað ríkisstjórnin að framlengja úrræði sem varðar tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Var ákveðið að úrræðið myndi gilda út árið.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn hefur kallað eftir því að starfsemi Vinnumálastofnunnar verði tekin til frekari skoðunar, það er að stofnunninni verði gert betur kleift að sinna því starfi sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Það er til dæmis ólíðandi að á sama tíma og atvinnuleysi er mikið á Íslandi skuli ganga illa að ráða fólk til starfa í almenn verkamannastörf. Framsýn kallar eftir virkri vinnumiðlun.