Stéttarfélögin komu færandi hendi ásamt samstarfsaðilum

Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur, Íslandsbanki, Landsbankinn og Sparisjóður Suður-Þingeyinga hafa styrkt Slökkvilið Norðurþings til kaupa á lágþrýstilyftipúðasetti til notkunar við björgunarstörf stærri farartækja.

Búnaðurinn, sem er af Holmatro gerð system LAB 16 UN og keyptur hjá fyrirtækinu Ólafi Gíslasyni hf., var nýlega afhentur formlega og kynntur fulltrúm gefenda í nýju slökkvistöðinni á Húsavík.

Um er að ræða tvo lyftipúða, slöngur og stjórnborð fyrir búnaðinn. Lyftipúðarnir eru með mikla lyftigetu og geta lyft samtals 14,6 tonnum upp í 65 cm hæð.

Undanfarin ár hefur umferð stórra fólksflutninga ökutækja aukist gríðarlega í umdæminu og líkur á óhöppum því stóraukist. Afar mikilvægt var því að koma upp slíkum búnaði á svæðinu til að geta brugðist við og bjargað fólki úr slíkum aðstæðum ef þær koma upp.

„Búnaður sem þessi er dýr í innkaupum og því er afar mikilvægt þegar fyrirtæki og stofnanir á svæðinu sína samfélagslega ábyrgð sína í verki með stuðningi við slík innkaup og er Slökkvilið Norðurþings afar þakklátt þessum aðilum fyrir veittan stuðning“ sagði Grímur Kárason slökkviliðsstjóri við þetta tækifæri.

Fulltrúum gefenda var sýnt hvernig nýi búnaðurinn virkar.

Fv. Rúnar Traustason, Aðalsteinn Á. Baldursson, Margrét Hólm Valsdóttir, Jónas Kristjánsson, Gerður Sigtryggsdóttir, Bergljót Abreu Friðbjarnardóttir, Helga Þuríður Árnadóttir, Grímur Kárason og Henning Aðalmundsson.

 

Sá ágæti drengur Hafþór Hreiðarsson lánaði okkur myndirnar með fréttinni sem jafnframt byggir að mestu á frétt á þeim ágæta fréttamiðli 640.is