Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 18 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við samninganefnd ríkisins með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023 og nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Það er meðal annars hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Skógrækt ríkisins, Vegagerðinni, framhaldsskólunum á Húsavík og Laugum og hjá Vatnajökulsþjóðgarði.
Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:
- Laun hækka í samræmi við lífskjarasamninginn og hækka frá 1. apríl 2019.
- Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
- Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
- Vinnuvika vaktavikufólks verður 36 stundir m.v. fullt starf og nýtt launamyndunarkerfi tekið upp. Breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu sem býður upp á manneskjulegra umhverfi með styttri vinnuviku, þar sem miðað er að bættri heilsu, auknu öryggi og betri samþættingu einkalífs og vinnu.
- Tekin er upp ný launatafla sem byggir á álagsþrepum en ekki aldurþrepum, í tengslum við það eru stofnannasamningar endurskoðaðir og er ráðstafað allt að 142 milljónum króna vegna þessa.
- Framlag í orlofssjóð hækkar.
- Fellt út ákvæði um að heimilt sé að láta fólk gista í tjöldum.
- Full orlofsuppbót hækkar úr 50.000 kr. árið 2019 í 53.000 kr. árið 2022.
- Full persónuuppbót (desemberuppbót) hækkar úr 92.000 kr. árið 2019 í 000 kr. árið 2022.
- Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.
- Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 26. mars. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningnum fá frekari gögn varðandi samninginn og atkvæðagreiðsluna á næstu dögum.
Á meðfylgjandi mynd sem fylgir þessari frétt má sjá formann Framsýnar, Aðalstein Árna og félaga hans og formann Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálm Birgisson, frá undirritun samningsins í Karphúsinu í dag.