Staða Framsýnar mjög sterk um þessar mundir – mikil ásókn í félagið

Hefð er fyrir því að formaður eða varaformaður Framsýnar fari yfir starfsemi félagsins á jólafundi þess á hverju ári. Til fundarins er boðuð; stjórn félagsins, varastjórn, trúnaðarmenn á vinnustöðum, stjórn Framsýnar-ung og starfsmenn félagsins. Jólafundurinn stendur nú yfir og var formaður félagsins, Aðalsteinn Árni, að ljúka við að rifja upp það helsta úr starfi félagsins á umliðnu ári.  Hér má lesa ávarp formannsins:

Ágætu félagar

Við höfum lengi haldið okkur við það að halda sérstakan jólafund stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í desember ár hvert. Starfsmönnum og öðrum þeim sem starfa fyrir félagið í stjórnum, ráðum og nefndum hefur einnig verið boðið að sitja fundinn.

Tilefnið er ekki síst að gera upp árið í starfsemi félagsins, taka fyrir fyrirliggjandi mál og eiga saman ánægjulega kvöldstund.

Árið 2019 hefur verið annasamt í okkar starfi, ekki síst þar sem það hefur einkennst af kjaraviðræðum og kjarasamningsgerð sem ekki er séð fyrir endann á enda enn nokkrir kjarasamningar lausir. Undirbúningur félagsins við kjarasamningsgerð hófst í október 2018 og þeirri vinnu er ekki enn lokið, þar sem ósamið er við ríki, sveitarfélög og Landsvirkjun.

Árið hófst með því að skipuleggja orlofskosti fyrir félagsmenn sumarið 2019. Ákveðið var að bjóða félagsmönnum upp á sambærilega kosti og verið hafa undanfarin ár á góðum kjörum. Ekki er annað að heyra en að félagsmenn séu ánægðir með það framboð sem aðildarfélög skrifstofu stéttarfélaganna hafa boðið upp á í gegnum tíðina.

Samkvæmt 3.mgr. 49. gr. laga ASÍ skulu stjórnir sjúkrasjóða aðildarfélaga ASÍ fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Á umliðnu starfsári lét Framsýn framkvæma þessa athugun og sá PWC um skoðunina.

Niðurstaðan er skýr: „ekkert bendi til annars en að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á allra næstu árum sé litið til eiginfjárstöðu í árslok 2017, afkomu sjóðsins á undanförnum árum og þess að bótagreiðslur úr sjóðnum og iðgjöld til sjóðsins verði áfram með líkum hætti og verið hefur.“ Þá kemur fram í fylgisjali að staðan sé í raun öfundsverð.

Þessi niðurstaða sýnir og sannar að við erum á réttri leið í rekstri félagsins, félagsmönnum til hagsbóta.

Deild verslunar- og skrifstofufólks boðaði til aðalfundar 11. febrúar. Jóna Matthíasdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Jónína Hermannsdóttir tók við stöðu formanns og gegnir því hlutverki í dag. Full ástæða er til að þakka Jónu fyrir vel unninn störf í þágu félagsins.

Framsýn stóð fyrir félagsfundi um kjaramál í fundarsal stéttarfélaganna í lok febrúar. Fundurinn var sérstaklega boðaður til kjörinna fulltrúa stjórnar og trúnaðarráðs, til trúnaðarmanna á vinnustöðum og Framsýnar – ung. Tæplega 30 manns tóku þátt í fundinum.

Í mars stóðu stéttarfélögin sem aðild eiga að skrifstofu stéttarfélaganna fyrir sameiginlegum fundi með stjórnendum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga um hugmyndir sem verið hafa til skoðunar um sameiningu Atvinnuþróunarfélagsins við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Eyþing. Framsýn hefur átt aðild að Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og átt mann í stjórn félagsins. Ljóst er að Framsýn hugnast ekki þessi sameining og telur hana koma til með að veikja samstöðu sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum varðandi frekari atvinnuþróun í héraðinu. Skoðunum félagsins hefur verið komið vel á framfæri.

Framsýn tók þátt í spurningavagni Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Lagðar voru fyrir nokkrar spurningar um félagið í formi netkönnunar og fór könnunin fram dagana 7. – 25 mars 2019 í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum. Alls svöruðu 1552 manns könnuninni, þar af 451 þátttakendur í Þingeyjarsýslum og var svarhlutfall 69.5%. Könnunin kom afar vel út fyrir félagið. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er mikil ánægja meðal félagsmanna með starfsemi Framsýnar og staðfestir fyrri kannanir sem sýna sömu niðurstöðu. Stjórnendur Framsýnar eru greinilega á réttri leið með starfsemi félagsins.

Kjarasamningar SGS/LÍV og SA voru undirritaðir 3. apríl. Langur aðdragandi var að þessum kjarasamningum og ýmislegt gekk á meðan á viðræðum stóð milli aðila. Bandalag Eflingar, VR, LÍV, VLFA, VG og Framsýnar afstýrði stórslysi sem hefði orðið hefðu hugmyndir SA varðandi vinnutímabreytingarnar náð fram að ganga. Á lokasprettinum komu önnur félög innan SGS að borðinu og lauk þeirri vinnu með undirritun kjarasamnings. Um er að ræða ágæta samninga sem byggja á þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar. Samningurinn byggir á krónutöluhækkunum sem Framsýn hefur lengi talað fyrir. Útspil ríkisstjórnarinnar spilaði stóra rullu á lokasprettinum þar sem inn komu skattalækkanir og fleiri atriði. Gildistími samningsins sem kallaður er Lífskjarasamningurinn er til þriggja ára og átta mánaða, það er til 1. nóvember 2022. Í atkvæðagreiðslu um samninginn/samninganna voru þeir samþykktir meðal félagsmanna Framsýnar og annarra stéttarfélaga innan LÍV og SGS. Þess ber að geta að félagið stóð fyrir nokkrum kynningarfundum um kjarasamningana, það er á íslensku og ensku. Fundirnir hefðu mátt vera betur sóttir af félagsmönnum.

Félagið stóð fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði í apríl í samstarfi við fræðsludeild ASÍ. Trúnaðarmannakerfið hefur aldrei verið eins öflugt og er um þessar mundir, tæplega 30 trúnaðarmenn eru starfandi á félagssvæðinu. Að þessu sinni tóku 17 trúnaðarmenn þátt í námskeiðinu í vor. Markmið Framsýnar er að trúnaðarmenn séu á öllum vinnustöðum.

Félagið kom að því að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn sem fóru á sýningar hjá Leikfélagi Húsavíkur og Eflingar í Reykjadal. Töluverður hópur félagsmanna nýtti sér þessi sérkjör félagsmanna og skelltu sér í leikhús.

Félagi, Aðalbjörn Jóhannsson, gegndi um tíma formennsku í ASÍ – UNG. Hann lét af þeim störfum á árinu.

Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí gengu vel fyrir sig og mikið fjölmenni tók þátt í hátíðarhöldunum. Hátíðarhöldin í ár voru tileinkuð baráttu eldri borgara og var Ásdís Skúladóttir frá Gráa hernum aðalræðumaður dagsins.

Ungliðafundur SGS var haldinn á Hallormsstað 22 – 23 maí. Fulltrúar Framsýnar á fundinum voru Sunna Torfadóttir og Guðmunda Jósepsdóttir.

Kristján Ásgeirsson sem lengi var formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur andaðist í vor. Kristján sem var mikill verkalýðssinni setti sterkan svip á uppbyggingu félagsins og lagði grunn að því góða starfi sem síðar var viðhaldið. Hans var minnst sérstaklega með gjöf til HSN. Um var að ræða 2 milljónir upp í kaup á fullkomnum hjartaeftirlitstækjum á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík, tækin kosta um 8 milljónir króna.

Þann 5. júní var undirritaður nýr sérkjarasamningur við PCC BakkiSilicon hf. Samningurinn er með sama gildistíma og Lífskjarasamningurinn. Samningurinn var samþykktur, nánast samhljóða, í atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna. Um 94% starfsmanna samþykkti samninginn. Með samningnum tókst að tryggja starfsmönnum viðunandi kjör. Markmiðið er að laun starfsmanna PCC verði sambærileg við laun annarra starfsmanna í sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.

Sjómannadeild Framsýnar sá um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Í ár voru Hermann Ragnarsson og Jakob G. Hjaltalín heiðraðir. Þá stóð Framsýn að venju fyrir „útifundi“ á Raufarhöfn föstudaginn 31. maí, það er fyrir sjómannadagshelgina líkt og síðustu ár. Kvenfélagskonur á Raufarhöfn lögðu til hnallþórur líkt og undanfarin ár, sem Framsýn kostaði. Góð mæting var í kaffið.

Aðalfundur félagsins var haldinn í byrjun júlí og var mæting á fundinn góð en um 40 manns tóku þátt í fundinum. Því miður dróst að halda fundinn í ár en samkvæmt lögum félagsins ber að halda hann í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar ár hvert. Að sjálfsögðu eigum við að virða lög félagsins nema utanaðkomandi aðstæður verði þess valdandi að það gangi ekki upp. Við munum gera allt til þess að hægt verði að halda aðalfundinn á næsta ári innan marka.

Á aðalfundinum kom fram að fjárhagsleg afkoma félagsins var mjög góð á árinu 2018. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 3,8% milli rekstrarára.  Rekstrartekjur félagsins námu kr. 273.526.627,- sem er aukning um 3% milli ára. Heildareignir félagsins námu kr. 2.017.426.041,- í árslok 2018 samanborið við kr. 1.895.352.623,- í árslok 2017. Þá fengu félagsmenn tugi milljóna í styrki í gegnum sjóði félagsins á árinu 2018. Í því sambandi er rétt að minna á að félagsmenn Framsýnar halda fullum rétti í félaginu þrátt fyrir að þeir hætti á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku.

  1. Þing Alþýðusambands Norðurlands var haldið að Illugastöðum dagana 27 – 28 september. Framsýn átti góða sveit fulltrúa á þinginu. Guðný I. Grímsdóttir var kjörin í stjórn sambandsins. Ósk Helgadóttir var áður í stjórn sem fulltrúi félagsins og eru henni þökkuð góð störf á vetfangi AN.

Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir sumarferð. Farið var í dagsferð á Flateyjardal um miðjan september og var þátttaka í ferðinni mjög góð. Ósk Helgadóttir varaformaður skipulagði ferðina sem tókst í alla staði mjög vel enda ekki við öðru að búast þegar hún á í hlut.

  1. Þing SGS var haldið í Reykjavík 24 og 25 október. Framsýn átti rétt á 5 fulltrúum. Aðalsteinn Árni Baldursson, Ósk Helgadóttir, Jakob G. Hjaltalín, Sigurveig Arnardóttir og Guðmunda Jósefsdóttir voru fulltrúar félagsins á þinginu. Aðalsteinn Árni hlut áframhaldandi kjör í framkvæmdastjórn sambandsins. Að öðru leiti fór þingið vel fram en skjálfti var í kringum kosningar á þinginu, en þau mál leystust farsællega.

Þá má geta þess að Nína skutlaðist inn á Akureyri á 31. þing LIV sem haldið var dagana 18 – 19 október. Nína fór ekki tómhent heim þar sem hún var kjörin í varastjórn LÍV.

Í lok síðasta árs var gengið frá samningum við Flugfélagið Erni um kaup á 4.800 flugmiðum fyrir félagsmenn. Heildargreiðsla fyrir þá var um 50. 000.000 sem var greidd í tvennu lagi. Þannig tryggðum við félagsmönnum flugmiðann á kr. 10.300. Um þessar mundir erum við að ganga frá samningi við Erni um áframhaldandi samning. Við teljum okkur vera búin að tryggja félagsmönnum áfram sama góða verðið fram á árið en í haust liggur fyrir að miðarnir fara úr kr. 10.300 upp í kr. 10.900. Samningsdrög sem liggja fyrir byggja á því. Gríðarleg ánægja er meðal félagsmanna með þessi afsláttarkjör.

Á árinu kom félagið að því með Norðurþingi að hvetja Vinnumálastofnun til að efla þjónustu við atvinnuleitendur á svæðinu. Fundað var með stjórnendum VMST. Því miður hefur lítið breyst hvað þjónustuna varðar. Framsýn mun standa vaktina áfram enda núverandi fyrirkomulag ekki boðlegt.

Starfsfólk Íslandspósts á Húsavík hefur viljað ganga í Framsýn. Eigi það að ganga upp þarf samþykki stjórnenda Íslandspósts. Það samþykki liggur ekki fyrir, það er að Íslandspóstur geri kjarasamning við Framsýn. Málið er í höndum SA.

Formanni félagsins bauðst að fara til Palestínu í lok október. Ferðin var áhugaverð í alla staði. Fundað var með stjórnvöldum, verkalýðssamtökum og góðgerðarfélögum í Palestínu. Formaður þakkar fyrir stuðninginn sem hann fékk frá félaginu vegna ferðarinnar.

Mikilvægur þáttur í starfsemi Framsýnar er að halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi til að miðla upplýsingum til félagsmanna. Þá voru starfsmenn félagsins nokkuð duglegir að heimsækja vinnustaði á svæðinu á árinu. Vonandi tekst okkur að efla það starf frekar á næsta ári.

Félagið kom að því að styrkja nokkur mikilvæg verkefni á félagssvæðinu á árinu með fjárframlögum.

Félagið stóð fyrir ljósmyndasýningu á Mærudögum sem tókst afar vel og fjöldi fólks leit við og skoðaði myndirnar sem teknar voru saman í tilefni af 100 afmæli Verkakvennafélagsins Vonar 2018 af félagskonum við störf. Myndirnar voru til sýnis í Hrunabúð.

Félagið keypti íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn á árinu sem tekin var formlega í notkun um miðjan nóvember sl. Íbúðin er ætluð félagsmönnum sem þurfa að dvelja á Akureyri vegna veikinda, orlofs eða vegna einkaerinda. Íbúðin er í Furulundi 11 E og er kaupverðið kr. 40.500.000. Íbúðin sem er 106m2 er í 5 íbúða raðhúsi, sem byggt er árið 1973. Aðrar íbúðir í raðhúsinu eru í eigu annarra stéttarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það var við hæfi að Svava Árnadóttir vígði íbúðina formlega enda hefur hún lengi talað fyrir því innan stjórnar Framsýnar að félagið fjárfesti í íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn.

Þó nokkur hópur félagsmanna tók þátt í fundum eða þingum sem verkalýðshreyfingin stóð fyrir á árinu sem fulltrúar félagsins. Þá eru fulltrúar Framsýnar reglulega beðnir um að flytja erindi eða annan fróðleik á fundum og/eða ráðstefnum. Jafnframt hafa fulltrúar stéttarfélaganna farið með fróðleik um starfsemi stéttarfélaga inn í grunn- og framhaldsskóla á félagssvæðinu. Það á reyndar líka við um Vinnuskóla á svæðinu.

Að venju vorum við dugleg að álykta á árinu um kjara- atvinnu og önnur mál sem varða velferð okkar félagsmanna. Hugsanlega eigum við Íslandsmet í ályktunum.

Starfsárinu er samt sem áður ekki lokið, framundan er aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar í lok desember og jólaboð stéttarfélaganna laugardaginn 14. desember. Þá vorum við að klára viðbótarsamning við PCC varðandi hæfnismat sem tryggir starfsmönnum viðbótarlaunahækkun upp á 2,5%. Þá munum við áfram taka þátt í viðræðum við ríkið, sveitarfélög og Landsvirkjun um nýja kjarasamninga fyrir okkar félagsmenn sem starfa hjá þessum aðilum. Eins og skynja má, þá stöndum við vaktina 24-7 hjá Framsýn.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komið hafa að störfum fyrir félagið fyrir þeirra ómetanlegu og óeigingjörnu störf í þágu félagsmanna sem og þeim sem skipa landslið starfsmanna á skrifstofu stéttarfélaganna. Þau hafa staðið vaktina og gert sitt besta til að halda skútunni á floti með góðu viðhaldi. Fyrir það ber að þakka.

Ég tel við hæfi að við rísum úr sætum og heiðrum minningu félaga okkar sem látist hafa á árinu og þeirra sem starfað hafa fyrir félagið eins og Kristjáns Ásgeirssonar og Jónu Jónsdóttur sem létust fyrr á árinu.

Megi guð gefa okkur og fjölskyldum sem og öðrum gleðileg jól og farsælt komandi ár. Takk fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða.