Framsýn kom færandi hendi í kvöld

Rétt í þessu afhendi Framsýn unglingum í 3 flokki Völsungs og fararstjórum treyjur að gjöf frá félaginu. Unglingarnir sem eru á aldrinum 14 til 17 ára voru að leggja í spennandi keppnisferð til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Gautaborgar á Gothia Cup. Fótboltamótið er með stærri alþjóðlegum mótum sem haldin eru fyrir þennan aldurshóp og fara tæplega fjörutíu unglingar og fararstjórar frá Völsungi í ferðina.  Síðustu tvö ár hafa unglingarnir með góðri aðstoð foreldra safnað fyrir ferðinni sem auk þess komu að því að skipuleggja ferðina. Ferðin til Gautaborgar tekur um viku tíma og var farið frá Borgarhólsskóla á Húsavík í kvöld og flogið verður frá Keflavík í morgunsárið.

Formaður Framsýnar afhendi keppnisförum sem voru að leggja í ferð til Svíþjóðar í kvöld treyjur frá félaginu auk þess að óska þeim góðrar ferðar. Unga fólkið þakkaði vel fyrir sig um leið og þau héldu brosandi á Gothia Cup. Framsýn óskar hópnum góðrar ferðar.