Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að færa Styrktarfélagi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Húsavík, tvær milljónir til tækjakaupa til minningar um Kristján Ásgeirsson fyrrverandi formann Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags. Ákörðun þess efnis var tekin á stjórnarfundi í gærkvöldi. Undanfarna mánuði hefur staðið yfir söfnun fyrir nýjum hjartaeftirlitstækjum á sjúkradeild stofnunarinnar á Húsavík. Ætlunin er að kaupa eftirlitstæki sem samanstendur af nettengdum tækjum; vöktunartæki á vaktherbergi, tveimur veggföstum skjám til að hafa eftirlit með rúmliggjandi sjúklingum og tæki til að fylgjast með sjúklingi sem ekki er rúmliggjandi. Með tækjunum er hægt að mæla blóðþrýsting, öndum, súrefnismettun, púls og sjá hjartasláttarrit. Gömlu tækin eru löngu komin á tíma og ekki lengur hægt að fá varahluti í þau ef þau bila. Nýju tækin kosta um 8 milljónir. Framsýn vill nota tækifærið og skora á velunnara stofnunarinnar að leggja til fjármagn til kaupa á þessu mikilvæga tæki fyrir HSN á Húsavík.