SGS og SA slitu kjaraviðræðum hjá Ríkissáttasemjara í gær. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, segir vinnutímamál orsök slitanna en Halldór Benjamín Þorbergson, formaður SA, segir kjarasamninga margbrotna og erfitt að taka einstaka hluti út úr.
Aðalsteinn Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík, segir viðræðuslitin í gær engu breyta varðandi fyrirætlun félagsins um að draga samningsumboð sitt til baka frá SGS.
„Við verðum með fund í dag kl. 17 með stjórn, trúnaðarráði og trúnaðarmönnum á vinnustöðum, alls 60 manns, til þess að fara yfir stöðuna og kalla fram vilja fólks. Fyrir fundinum liggur tillaga um að draga samningsumboðið frá SGS. Ástæðan er einföld, við höfum lagst eindregið á móti hugmyndum SA um breytingar á neysluhléum starfsmanna, lengingu dagvinnutímabils og lækkun á yfirvinnuálagi. Við höfum ekki náð að fá aðra með okkur í þessa vegferð innan SGS. Við teljum okkur því ekki eiga samleið með þeim að klára þessa samninga. Við viljum ekki sjá þessa kjaraskerðingu fyrir okkar fólk,“ segir Aðalsteinn í Morgunblaðinu í dag og bendir á að hugmyndir um breytingar á vinnutíma hafi meðal annars gert það að verkum að Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðs- og sjómannafélag Grindavíkur héldu sínu samningsumboði.