Málefni AÞ til umræðu

Fulltrúar úr stjórnum Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur komu saman til fundar á mánudaginn með forsvarsmönnum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga þeim Reinhard Reynissyni framkvæmdastjóra félagsins og Elíasi Péturssyni stjórnarformanni AÞ. Hugmyndir hafa verið uppi um að sameina félagið við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Eyþing samtök sveitarfélaga á Norðurlandi. Ósk um sameiningu þessara stofnana kemur frá Akureyri. Reinhard og Elías fóru yfir málið, sögðu frá umræðunni í stjórn Atvinnuþróunarfélagsins, hugmyndum Eyþings og umræðunni meðal sveitarstjórnarmanna í héraðinu en Atvinnuþróunarfélagið er að mestu í eigu sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Stjórnendur AÞ hafa átt fundi með öllum þeim aðilum sem eiga aðild að Atvinnuþróunarfélaginu til að heyra þeirra skoðanir á málinu. Í máli fulltrúa stéttarfélaganna kom fram að þeim hugnast ekki þessi sameining og niðurstaða fundarins var að hvetja sveitarfélög í Þingeyjarsýslum til að standa vörð um atvinnuþróun í héraðinu með öflugu atvinnuþróunarfélagi í heimabyggð. Í því sambandi ber að geta þess að stéttarfélögin og samtök fyrirtækja í Þingeyjarsýslum hafa fram að þessu átt mjög gott samstarf við sveitarfélögin um atvinnumál og atvinnuþróun í gegnum Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Stjórnir stéttarfélaga komu saman til fundar með forsvarsmönnum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga til að ræða hugmyndir sem uppi eru um sameiningu atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi. Almennt leist mönnum illa á þá hugmynd.