Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka enda er almenningur langþreyttur á skorti á samkeppni á fjármálamarkaði, miklum kostnaði og háu vaxtastigi hér á landi.
Með eignarhlut sínum í ríkisbönkum eru stjórnvöld í kjörstöðu til að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka, þar sem hagsmunir neytenda verði hafðir að leiðarljósi og skilið sé á milli áhættusækins bankareksturs og almennrar inn- og útlánastarfsemi. Miðstjórn ASÍ telur að stofnun slíks samfélagsbanka geti verið mikilvæg leið til að auka heilbrigði fjármálamarkaðar og færa vaxtastig og kostnað nær því sem þekkist í nágrannalöndum.