Þingiðn: Framlag félagsmanna í fræðslusjóð verður 0,3% frá 1. janúar 2019

Á síðasta aðalfundi Þingiðnar var samþykkt að stofna fræðslusjóð Þingiðnar m.a. með því að félagsmenn greiddu 0,3% af launum sínum til sjóðsins sem innheimt verður með félagsgjaldinu. Þetta þýðir að framlag félagsmannsins til félagssjóðs með fræðslusjóðsgjaldinu verður frá 1.janúar 2019 1% í stað 0,7%.

Hér að neðan er bókun samþykktarinnar frá aðalfundi Þingiðnar 2018.

2. Fræðslusjóður Þingiðnar
Í máli formanns, Jónas Kristjánssonar, kom fram að stjórn Þingiðnar hefur unnið að því að stofna fræðslusjóð innan félagsins til hagsbóta fyrir félagsmenn. Dæmi eru um að félagsmenn hafi hótað úrsögn úr félaginu þar sem þeir hafi ekki aðgengi að fræðslustyrkjum líkt og félagar í Framsýn hafa í gegnum fræðslusjóði Framsýnar. Ekki síst í ljósi þess leggur stjórnin til við aðalfund félagsins að stofnaður verði fræðslusjóður fyrir félagsmenn sem fjármagnaður verði með framlagi frá félagsmönnum upp á 0,3% frá og með næstu áramótum. Það er meðan ekki næst samstaða um það innan Samiðnar að semja um sérstakan fræðslusjóð fyrir félagsmenn aðildarfélaga Samiðnar. Þá er lagt til að aðalfundurinn samþykki að leggja fræðslusjóðnum til tvær milljónir þegar í stað þannig að hægt verði að úthluta úr sjóðnum eftir aðalfundinn. Aðalsteinn Árni gerði síðan grein fyrir drögum að reglugerð sjóðsins og starfsreglum. Eftir góðar umræður var samþykkt að stofna sjóðinn og leggja honum til tvær milljónir sem stofnframlag. Síðan greiði félagsmenn 0,3 til sjóðsins frá og með næstu áramótum sem innheimt verði með félagsgjaldinu. Reglugerð og starfsreglur sjóðsins voru einnig samþykktar samhljóða. Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með stofnun Fræðslusjóðs Þingiðnar.