Vinnuskúrinn – þátturinn sem vitnað er í. Aðalsteinn Árni gestur þáttarins á morgun

Útvarpsþáttur Gunnars Smára Egilssonar, Vinnuskúrinn, sem er á laugardagsmorgnum á Útvarpi Sögu hefur fengið góðar viðtökur. Í þættinum tekur Gunnar Smári fyrir verkalýðsmál og það helsta sem er að gerast í þjóðlífinu á hverjum tíma. Virkilega áhugaverður útvarpsþáttur sem full ástæða er til að hlusta á enda boðið upp á samfélagsumræðu á mannamáli frá sjónarhóli venjulegs fólks.
Í Vinnuskúrinn á morgun kemur Erna Indriðadóttir fyrst og ræðir um Gráa herinn, hagsmunabaráttu eftirlaunafólks, vefinn Lifðu núna og margt fleira. Síðan koma í vinnuskúrinn Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðasambandsins og varaforseti Alþýðusambandsins, Rósa María Hjörvar, formaður kjararáðs Öryrkjabandalagsins, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Gestirnir munu ræða fréttir vikunnar út frá sjónarhóli verkalýðsins, stöðuna í kjaramálum og stjórnmálunum. Vinnuskúrinn er á milli 10 og 12 á Útvarpi Sögu.