Aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar lokið

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í dag. Að venju fór fundurinn vel fram og góðar umræður urðu um starfsemi deildarinnar, frjálsa félagaaðild, uppsagnir í sjávarútvegi og komandi kjaraviðræður við útgerðarmenn en kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og samtaka útgerðarmanna rennur út í lok næsta árs. Þá var gengið frá kjöri á nýrri stjórn sem er eftirfarandi: 

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Heiðar Valur Hafliðason varaformaður
Björn Viðar ritari
Börkur Kjartansson meðstjórnandi
Aðalgeir Sigurgeirsson meðstjórnandi

Meðfylgjandi er skýrsla stjórnar sem formaður deildarinnar flutti á fundinum.

Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári. Hér á eftir verður stiklað á stóru úr starfi Sjómannadeildar Framsýnar á starfsárinu 2019, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á árinu sem er að líða.

Fjöldi sjómanna í deildinni:

Alls eru 97 sjómenn skráðir í deildina í árslok 2018, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku. Af þessum 97 sjómönnum greiddu 87 sjómenn félagsgjald til félagsins á árinu sem er að líða.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Heiðar Valur Hafliðason varaformaður, Björn Viðar ritari og Reynir Hilmarsson og Kristján Hjaltalín meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund á árinu auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma.

Heiðrun sjómanna og sjómannadagurinn:

Að venju stóð Sjómannadeildin fyrir heiðrun á sjómannadaginn. Að þessu sinni var ákveðið að heiðra Vilhjálm Pálsson og Björgunarsveitina Garðar fyrir björgunarstörf á sjó. Vilhjálmur hefur lengi farið fyrir björgunarsveitinni og beitti sér fyrir stofnun hennar á sínum tíma. Þá er óhætt að segja að það fylgi því ákveðið öryggi fyrir sjófarendur að vita af öflugri björgunarsveit í landi á hverjum tíma. Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöld sjómannadagsins á Húsavík og á Raufarhöfn með fjárstuðningi auk þess að standa fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn á föstudeginum fyrir sjómannadaginn. Deildin hefur gert það í nokkur ár, en kaffiboðið hefur notið mikilla vinsælda meðal sjómanna, bæjarbúa og gesta sem átt hafa leið um Raufarhöfn.

Þing SSÍ og sameining sjómannafélaga:

Reglulegt þing Sjómannasambands Íslands var haldið í Reykjavík 11. – 12. október 2018. Fulltrúi Sjómannadeildar Framsýnar á fundinum var Jakob Gunnar Hjaltalín. Þingið var fjörugt enda höfðu talsmenn nokkurra „hreinna“ sjómannafélaga boðað sameiningu sjómannafélaga í eitt stórt sjómannafélag og úrsögn úr Sjómannasambandi Íslands. Þrjú sjómannafélög innan SSÍ voru í viðræðum um sameiningu við tvö félög sjómanna sem standa utan SSÍ. Fyrir lá að ef af sameiningu þessara fimm sjómannafélaga hefði orðið yrði hið sameinaða félag ekki innan Sjómannasambands Íslands. Afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næstu tvö ár og stjórnarkjöri fyrir sambandið var því frestað vegna óvissunnar. Boðað var til framhaldsþings þann 30. nóvember til að ljúka þingstörfum 31. þings sambandsins. Á framhaldsþinginu var kosin ný stjórn til næstu tveggja ára. Jakob G. Hjaltalín hlaut áfram kjör í vara sambandsstjórn. Á þinginu voru samþykktar ályktanir um kjara- og atvinnumál og um öryggis og tryggingamál sem eru meðfylgjandi ársskýrslunni. Að mati Sjómannadeildar Framsýnar hefði það ekki verið gæfuspor fyrir sjómenn ef ákveðin félög hefðu sameinast og sagt sig úr Sjómannasambandi Íslands. Sterkari saman er lykillinn að kjarabótum fyrir sjómenn ekki sundrung.

Starfsemi sjómannafélaga:

Málefni Sjómannafélags Íslands, áður Sjómannafélags Reykjavíkur hafa töluvert verið í umræðunni undanfarið. Þar kemur til að frambjóðenda til formanns, Heiðveigu Maríu Einarsdóttur, hefur verið meinað að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir félagið sem virðist á mjög hæpnum forsendum. Þá sagði Sjómannafélag Íslands sig úr Alþýðusambandi Íslands á sínum tíma og fellur því ekki undir eftirlit sambandsins líkt og Framsýn, stéttarfélag sem þarf að standa skil á skýrslum um starfsemina og ársreikningum til sambandsins enda Alþýðusambandinu ætlað ákveðið eftirlitshlutverk með aðildarfélögum sambandsins. Sjómannafélag Íslands kom sér undan þessu eftirliti og aðhaldi með úrsögn úr Alþýðusambandinu og með því að ganga jafnframt úr Sjómannasambandi Íslands. Sjómannadeild Framsýnar gerir þá kröfu til sjómannafélaga að þau starfi með lýðræðislegum hætti og greiði leið félagsmanna til að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir félögin.

Uppsagnir og staða sjómanna:

Nýlega var 36 sjó­mönn­um í áhöfn frysti­tog­ar­ans Guðmund­ar á Nesi sagt upp störf­um eft­ir að Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur (ÚR) ákvað að selja tog­ar­ann. Tæplega þriðjungur áhafnarinnar er í Framsýn stéttarfélagi og er þetta því bæði mikið högg fyrir sjómenn útgerðarfyrirtækisins og Sjómannadeild Framsýnar. Framsýn hefur þegar skorað á ÚR að hætta við söluna á skipinu. Í til­kynn­ingu frá útgerðarfé­lag­inu seg­ist fyrirtækið harma aðgerðirn­ar. Í upp­hafi þessa árs gerði fyrirtækið út fjóra frysti­tog­ara frá Reykja­vík. Í upp­hafi næsta árs mun fé­lagið aðeins gera út einn slík­an, Kleif­a­berg, og þá mun sjó­mönn­um fé­lags­ins hafa fækkað um sam­tals 136. Í til­kynn­ingu útgerðarfyrirtækisins seg­ir að ástæður þess­ar­ar óheillaþró­un­ar séu fjölmarg­ar en þær helstu eru „erfiðar rekstr­araðstæður frysti­tog­ara sem stjórn­völd á Íslandi beri verulega ábyrgð á með óhóf­legri gjald­töku stimp­il- og veiðigjalda.“ Þá er verk­fall sjó­manna í fyrra einnig tekið inn í mynd­ina og seg­ir fé­lagið að kjara­samn­ing­ar í kjöl­far verk­falls­ins hafi gert rekst­ur frysti­tog­ara erfiðan við Ísland. Því miður er með ólíkindum hvað sumar útgerðir þessa lands geta lagst lágt í að verja gjörðir sínar. Það að halda því fram að verkfall sjómanna hafi leitt til þess að útgerðir þurfi að losa sig við fiskiskip er algjör fjarstæða og til skammar fyrir viðkomandi útgerðir sem halda slíku fram. Talandi um veiðigjöld hafa þau ekki verið meira íþyngjandi en svo að búið er að endurnýja flotann að töluverðu leyti á síðustu árum auk þess sem öflug skip eru í smíðum erlendis. Þá hefur ekki vantað að hluthafar þessara sömu fyrirtækja hafi verið að greiða sér svimandi háar arðgreiðslur sem eiga sér vart hliðstæður í íslensku viðskiptalífi. Það að halda því fram að veiðigjöld og verkföll sjómanna hafi skapað þessa stöðu er því algjör brandari og á skjön við veruleikann svo ekki sé meira sagt. Reyndar mikil lítilsvirðing við sjómenn. Eðlilega er sjómönnum brugðið sem síðustu vikurnar og mánuði hafa misst vinnuna eða eru með uppsagnarbréfin í vasanum. Vegna stöðunnar hafa sjómenn töluvert verið í sambandi við Framsýn sem leitast hefur við að svara fyrirspurnum sjómanna í samráði við Sjómannasamband Íslands. Sjómannadeild Framsýnar kallar eftir auknu siðferði meðal útgerðarmanna og að lífeyrissjóðir fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem haga sér með þessum hætti. Samkvæmt lögum eru lífeyrissjóðir eign sjóðsfélaga. Útgerðarmenn eiga ekki að komast upp með að gambla með lífeyrissjóði sjómanna eða annarra sjóðsfélaga í eigin þágu og grafa þannig undan stöðu sjómanna og lífsviðurværi þeirra eins og dæmin sanna. Þess vegna taldi Framsýn rétt að skora á Lífeyrissjóðinn Gildi að endurskoða fjárfestingastefnu sjóðsins er viðkemur þeim fyrirtækjum sem haga sér með þeim hætti sem endurspeglast í vinnubrögðum Útgerðarfélags Reykjavíkur og HB Granda. Það verður aldrei friður um fjárfestingar lífeyrissjóða meðan fyrirtæki haga sér með þessum hætti í skjóli fjármagns frá lífeyrissjóðum.

Fræðslumál:

Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi. Þeir sem vilja fræðast frekar um úthlutunarreglur sjóðina er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 7 starfsmenn á skrifstofunni. Þar af er einn í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit og þá er einn starfsmaður í hlutastarfi við þrif og ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim 7 starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt hefur starfsemi Framsýnar gengið vel á árinu, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2019. Ekki tókst að viðhalda sama góða verðinu. Þess í stað hækkar fargjaldið í kr. 10.300 frá og með næstu áramótum og verður áfram aðeins brot af fullu fargjaldi á flugleiðinni, Húsavík-Reykjavík. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma.

Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum. Þá vil ég þakka þeim sem falla úr stjórn deildarinnar sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar á umliðnu starfsári.

Jakob Gunnar Hjaltalín

Ályktun um kjara- og atvinnumál:
31. þind Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands. Með því móti er hægt að treysta því að mælingar á breytingum á afurðaverði séu réttar á hverjum tíma.

31. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til þess að samtök útgerðarmanna skoði fjarskiptamál sjómanna með það að markmiði að lækka kostnað þeirra vegna fjarskipta þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annarra landsmanna.

31. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lágmarks hvíldartíma sjómanna. Jafnframt fagnar þingið könnun á hvíldar- og vinnutíma íslenskra sjómanna. Þingið telur að aðkoma sjómannasamtakanna að könnuninni sé algert lykilatriði og að hún sé unnin í nánu samstarfi við sjómennina sjálfa eins og fyrirhugað er. Ekkert má skyggja á trúverðugleika könnunarinnar að mati þingsins. Þingið telur að gera þurfi slíkar athuganir reglulega þannig að fyllsta öryggis sé ávallt gætt um borð í skipum.

  1. þing Sjómannasambands Íslands skorar á Íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samskiptum.

31. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin. Að öðrum kosti sjái opinberir aðilar um alla endurvigtun.

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntunarsjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera.

31. þing Sjómannasambands Íslands fagnar smíði nýs skips til hafrannsókna. Þingið hvetur stjórnvöld í framhaldinu til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland

  1. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla. Þingið leggur til við stjórnvöld að ýmsar ívilnanir í lögunum um stjórn fiskveiða verði afnumdar, svo sem línuívilnun, byggðarkvóti og VS afli.

31.þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu útgerðarmanna um verulega lækkun launa vegna veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar sem er sjómönnum óviðkomandi.

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til varkárni þegar rafrænt eftirlit er stundað um borð í skipum. Augljóslega er rafrænt eftirlit til bóta þegar öryggi skipverja og skips á í hlut. Skilja verður algerlega milli vinnu og friðhelgis einkalífs skipverja. Skipið er jú bæði vinnustaður og heimili sjómannsins. Þingið er sammála því að aukið rafrænt eftirlit verði haft með löndun úr íslenskum skipum til að koma í veg fyrir löndun fram hjá vigt.

31.þing Sjómannasambands Íslands telur að framkomið frumvarp til laga um veiðigjald færi álagningargrunninn nær í tíma sem er til bóta en mótmælir því að útgerðin geti flutt hagnað frá veiðum til vinnslu.

Ályktun um öryggis- og tryggingamál:

31.þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt fé til rekstrar. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. Til að öryggi sé sem best tryggt þarf að mati þingsins að staðsetja þyrlur víðar um landið en nú er gert. Jafnframt fagnar þingið þeim áformum stjórnvalda að leggja fram aukið fé til þyrlukaupa.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands bendir á auknar siglingar skemmtiferðaskipa umhverfis landið. Mikilvægt er að til sé hér á landi viðbragðsáætlun þannig að ekki verði stórslys verði óhapp vegna aukinnar umferðar þessara skipa.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. Því telur þingið nauðsynleg að tryggt verði fjármagn í að fylgja þessu eftir með opinberu eftirliti. Jafnframt telur þingið nauðsynlegt að öll áhöfnin staðfesti með undirskrift að æfing hafi verið haldin um borð. Þannig er komið í veg fyrir málamyndaæfingar. Einnig skorar þingið á yfirmenn fiskiskipa að sjá til þess að nýliðar fái lögbundna fræðslu um öryggisbúnað og hættur um borð.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim tilmælum til Slysavarnaskóla sjómanna að taka upp samstarf við slysavarnadeildir, slökkvilið og stéttarfélög sjómanna víðs vegar um landið um að koma á endurmenntunarnámskeiðum í heimabyggð.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands þakkar Slysavarnaskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega þeirri tilhneigingu einstakra útgerðarmanna að fækka í áhöfn skipa á kostnað öryggis skipverja. Þingið hvetur stjórnvöld til að láta gera rannsókn á afleiðingum fækkunar í áhöfn vegna aukins vinnuálags sem af því leiðir. Í framhaldi verði sett lög um lágmarks mönnum fiskiskipa við veiðar eftir stærð, gerð og veiðiaðferðum.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands fer fram á að sá vinnufatnaður sem útgerðin lætur skipverjum í té sé frá viðurkenndum framleiðendum sem sérhæfa sig í framleiðslu sjófatnaðar. Þingið ítrekar að útgerðarmenn standi við ákvæði kjarasamningsins hvað þetta varðar. Vinnufatnaður verði jafnframt keyptur í samráði við áhafnir.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld samræmi reglur um vinnuaðstöðu sjómanna til jafns við reglur um vinnustaði í landi, t.d. um loft- og neysluvatnsgæði og hávaða á vinnustað.

 

  1. þing Sjómannasambands Íslands hvetur Samgöngustofu til að fylgjast vel með öryggisbúnaði skipa og afnema allar undanþágur vegna ágalla í öryggisbúnaði. Einnig hvetur þingið til þess að allar reglur um öryggisbúnað verði samræmdar burtséð frá aldri skipa.

31. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til þess að nýtt lögskráningarkerfi sjómanna verði tekið í notkun hið fyrsta. Það kerfi sem nú er notað er löngu úr sér gengið og lítið á það að treysta.

  1. þing Sjómannasambands Íslands áréttar að öll vímu- og áfengispróf verði framkvæmd af fagfólki á heilsugæslustöð og lög um persónuvernd verði virt við slík próf.

Það er alltaf fjör á fundum í Sjómannadeild Framsýnar.