Varaformaður Framsýnar með ávarp á þingi Kvenfélagasambands Íslands

Þing Kvenfélagasambands Íslands fór fram á Húsavík um helgina. Meðal ræðumanna var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar. Hér má lesa ávarpið:

Kæru systur. Til hamingju með þetta glæsilega þing sem hér er að hefjast og hjartans þakkir fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur hér í dag.

Mig langar að taka ykkur í smá söguskoðun. Við skulum hverfa aftur til ársins 1918 og setja okkur aðeins inn í aðstæður fólks á þeim tíma. Það ár þrengdi verulega kost íslensku þjóðarinnar. Árið hófst á fádæma frosthörkum. Katla gaus, spænska veikin herjaði og fyrri heimstyrjöldinni lauk eftir fjögurra ára blóðbað. Það var dýrtíð, atvinnuleysi, vöruskortur og vöruþurrð. En svo að þið haldið nú ekki að ég ætli eingöngu að telja upp það neikvæða sem gerðist þetta örlagaríka ár, þá er vert að minnast þess að Íslendingar fögnuðu fullveldi þann 1. desember og íslenskur fáni var dreginn að húni sem fullgildur þjóðfáni. Fyrir 100 árum.

En við skulum halda okkur hér á Húsavík, sem þá var eins og hvert annað þorp á gelgjuskeiði, íbúatalan um 650 manns og afkoma manna síst glæsilegri en annars staðar á landinu á þessum erfiðu tímum. Litla samfélagið var stéttskipt, hér bjuggu tvær aðalstéttir. Það voru „betri borgarar“ sem voru kaupmenn, embættismenn og verslunarþjónar og svo almúgafólk (smollar) sem voru verkamenn og iðnaðarmenn. Betri borgarar voru forystumenn í atvinnu og félagslífi og flestir smollarnir lifðu á því sem landið gaf. Þeir byggðu afkomu sína á sjónum þegar ekki var aðra vinnu að hafa, ýmist á árabátum eða vélbátum sem þá voru að koma til sögunnar. Sumir höfðu kýr til heimilis, nokkrar kindur, jafnvel geitur og hænur.

Konurnar sáu um það sem heima var, (unnu þessi verk sem alltaf hafa unnist af sjálfu sér) ólu upp börnin, þvoðu þvotta, sinntu öldruðum og sjúkum og héldu utan um stórfjölskylduna. Gæfist tími til unnu þær einnig utan heimilis. Hér á Húsavík unnu konur rétt eins og í öðrum sjávarþorpum á Íslandi, gjarnan árstíðabundin störf, oftast við fiskbreiðslu og fiskþvott. Það var mikil eftirspurn eftir konum til þess háttar starfa, þegar þess gerðist þörf.

Verslun var öll lánsverslun, eða skuldaverslun og peningar voru ekki mikið hafðir um hönd. Útgerðarmaðurinn og kaupmaðurinn var oftast sá hinn sami, fólk verslaði hjá þeim sem það vann hjá, vinnan og innleggið var skrifað og úttektin var skrifuð. Verulegar erjur milli verkafólks og vinnuveitenda voru varla komnar til sögunnar í litla þorpinu á Húsavík árið 1918, enda lágu málin nokkuð ljóst fyrir. Vinnuveitendur ákváðu hvert kaupið skyldi verða og þar við sat. Fólk lét sér það yfirleitt lynda þó sumir bölvuðu í hljóði. Almennt var aðbúnaður verkafólks á Íslandi ömurlegur og vinnuaðstaða einkamál atvinnurekanda.

Um aldamótin 1900 var hugmyndafræði sósíalisma og jafnaðarstefnu farin að skjóta rótum á Íslandi og átti sinn þátt í því að farið var að stofna hér stéttarfélög fyrir ófaglærða verkamenn. Baráttusamtök verkamanna spruttu upp víða um land og Húsavík var Verkamannafélag Húsavíkur stofnað árið 1911. Það félag var ekki opið konum frekar en flest önnur verkamannafélög sem stofnuð voru á þessum tima. Konur voru álitnar tímabundnir gestir á vinnumarkaði. Staða þeirra þar var því ekki aðeins veik heldur var einnig litið á konur sem aukavinnuafl.

En þá við erum líka komin að því sem ég ætlaði að gera að umræðuefni hér í dag. Yfirskrift þessa þings „Fylgdu hjartanu“ á þar einmitt vel við.

Það var í áðurnefndu umhverfi sem hugmyndir kviknuðu að stofnun baráttusamtaka fyrir verkakonur hér á Húsavík. Hugmyndin kom frá fátækri verkakonu sem hét Björg Pétursdóttir. Björg var mikil baráttukona, hún var alla tíð harður sóséalisti og hafði til að bera ríka réttlætiskennd. Henni sveið þessi mismunun kynjanna og áttaði sig á gildi þess að verkakonur, rétt eins og karlar tæku höndum saman og bindust samtökum. Björg vissi að áróður gegn samtökum verkafólks var sterkur og að sumar konur myndu óttast að blönduðu þær sér í kjarabaráttu misstu þær hylli góðra manna og fyrirgerðu jafnvel von sinni um himneska vegferð. Það var ekki þannig að allir tæku hugmyndum um stéttabaráttu eða kvenfrelsi fagnandi, hvorki konur né karlar og slík hugsun var ennþá fjarri mörgum fátækum verkakonum. Í þeirra huga ekkert sem hægt var að brauðfæða börnin með, enda hver dagur barátta fyrir tilveru fjölskyldunnar.

Björg trúði nágrannakonu sinni fyrir þessum hugleiðingum sínum, eitt leiddi síðan að öðru og úr varð að sent var út fundarboð fyrir væntanlega stofnun Verkakvennafélags á Húsavík. Boðað var til fundarins þann 28. apríl. Það var hugur í konum sem mættu vel fundinn og ræddu sín baráttumál. Þetta kvöld bundust húsvískar verkakonur samtökum. Þær stofnuðu með sér félag og nefndu það Von. Á fundinum var kjörin kauptaxtanefnd til að fylgja eftir kaupkröfum kvennanna. Þær kröfðust leiðréttingu launa, en sjálfsagt þótti á þessum tíma að greiða konum helming af launum karla, stundum minna. Þá tíðkuðust sérstakir kvenna-og karlataxtar, þrátt fyrir að oft hafi kynin unnið hlið við hlið.

Saga Vonar er sérstök. Þegar félagið var stofnað höfðu aðeins fjögur önnur Verkakvennafélög verið stofnuð á landinu og ekkert sem sagði til um hvernig slíkt félag skyldi starfa. Konurnar voru margar fákunnandi þegar kom að félagsstörfum, en það leystu þær með því að kjósa þær konur sem jafnframt voru í Kvenfélagi Húsavíkur til helstu trúnaðarstarfa innan félagsins fyrsta kastið.

Tengingin við Kvenfélagið gerði það að verkum að starfsemi Verkakvennafélagsins sameinaði aðalmál kvennabaráttunnar, stéttabaráttu, baráttu fyrir menntun kvenna og borgaralegum réttindum. Grunn­gild­i félagana tveggja voru um margt þau sömu. Bæði unnu þau að því að styrkja innviði nærsamfélagsins. Baráttumál sem kvenfélögin beittu sér að öllu jöfnu fyrir s.s. barnafræðsla, barnabindindi, æskulýðsmál, líknarmál, húsmæðrafræðsla og uppeldismál voru því, auk kjaramála stór þáttur í starfi Vonar fyrstu áratugina er félagið starfaði.

Verkakvennafélagið var aðili að Kvenréttindafélagi Íslands og félagið var einnig aðili að Kvenfélagasambandi Suður – Þingeyinga. Sambandsaðildin tryggði félagskonum fjárhagslegan stuðning við ýmiss konar námskeið og í samvinnu við kvenfélögin komu þær á námskeiðum með lærðum kennurum í prjóni, saumaskap, vefnaði, matargerð og jafnvel heimilisiðnaði. Námskeið sem þessi voru vel sótt og komu að góðu gagni.

Starfsemi Vonar gerði þær kröfur til meðlima sinna að þeir sæktu opinbera fundi eins og þorpsfundi og safnaðarfundi til að fylgjast með málefnum líðandi stundar. Til sumra verkefna þurfti fjármagn sem oft var ekki fyrir hendi og torveldaði það framkvæmdir. Það kallaði á fjáröflunarleiðir, allt var unnið í sjálfboðavinnu og fyrir kom að félagskonur sóttu fjámagn eigin vasa.

Verkakvennafélagið átti sjóð sem veitt var úr til fátækra félagskvenna og var hann efldur með ýmis konar fjáröflunum s.s. kartöflurækt, tombólum, kaffisölu á fundum og svo mætti lengi telja. Föst upphæð var látin renna í sjóðinn, en afgangurinn notaður til að styrkja starf félagsins, til námskeiðahalds og til að mæta óvæntum uppákomum.

Gerðabækur Verkakvennafélagsins veita innsýn í heim sem hjá mörgum var markaður fátækt og umkomuleysi. Það lætur lesandann ekki ósnortinn og glöggt má skynja þá miklu nærgætni og samhygð sem konurnar sýndu samferðafólki sínu. Vonarkonur hafa líkast til fæstar haft úr miklu að spila, en þær létu sig varða erfiðleika sérhvers sem þurfti aðstoðar við og það var ekki spurt um stétt eða stöðu. Kannski skipti aðstoð kvennanna ekki sköpum fyrir viðkomandi, en skipti þann sem hana þáði máli sem framrétt hönd á erfiðri stund.

Fyrstu árin voru fundir Verkakvennafélagsins oftast haldnir til skiptis á heimilum félagskvenna og allur kostnaður til rekstrarins gefinn. Fyrirkomulag funda var með nokkuð sama hætti og hjá Kvenfélaginu. Sérstök nefnd var kjörin til að sjá um aðalfundina sem voru með nokkuð sérstöku sniði. Dagskrá fundar var hraðað sem kostur var á og að henni lokinni var slegið á léttari strengi. Þá var eldri konum úr þorpinu boðið til fundarins og bornar voru fram veitingar. Kór Verkakvennafélagsins söng og var ýmislegt gert til skemmtunar. Konur stigu á stokk og skiptust á að lesa upp smásögur, kvæði, eða fluttu jafnvel frumsamið efni. Í lok fundar var stundum gripið í harmoniku og töfraðir fram ljúfir tónar. Fundarkonur sveifluðu sér í takt við dillandi tólistina í marsúka, ræl, skottís og polka. Það er nú rétt hægt að ímynda sér hversu mikil upplyfting slíkar stundir hafa verið frá hversdagsleikanum. Með þessu þreifst heilmikið menningarstarf samhliða kjarabaráttu innan verkakvennafélagsins og það er umhugsunarvert hvort þannig starfsemi hafi átt sér hliðstæður hjá öðrum verkakvennafélögum á landinu.

Þegar lengra leið og verkakvennafélögum fjölgaði viku „mjúku málin,“fastari skorður komust á starfshætti félagsins og það fann sinn stað í hugmyndafræði og starfi alþýðusamtakanna.

Vonarkonur beittu sér frá upphafi fyrir samvinnu við Verkamannafélagið og þrátt fyrir að í byrjun hafi tíðarandinn verið sá að konur stæðu einar í baráttu sinni við vinnuveitendur, breyttist það með tímanum og gott samstarf komst á meðal verkafólks í þorpinu. Samvinna verkafólks skilaði því að verkalýðshreyfingin á Húsavík náði í fyrsta sinn meirihluta fulltrúa í hreppsnefnd þorpsins árið 1921 og tímabil verkalýðsaflanna stóð allan þriðja áratug síðustu aldar. Sjálfar settust konurnar ekki í baráttusætin fyrir hreppsnefndarkosningar, en þær fundu til þeirra starfa kandídata sem þeim þóttu traustsins verðir, töluðu þeirra máli út í samfélaginu og hvöttu sitt fólk til dáða. Eftir því sem fulltrúum verkafólks fjölgaði í hreppsnefnd urðu til ný viðhorf til þeirra sem minna máttu sín og meiri samúðar gætti þar á bæ til fátæktar og umkomuleysis.

Árin liðu og þróuðust mál þannig innan Alþýðusambands Íslands að farið var að sameina félög verkakvenna og karla á hverjum stað. Það leiddi að lokum til þess að árið 1964 ruglaði húsvískt verkafólk saman reitum og gekk í eina sæng undir nafninu Verkalýðsfélag Húsavíkur. Inn í þann félagsskap gengu svo smá saman fleiri félög á svæðinu og til að gera langa sögu stutta nefnist félagið í dag Framsýn stéttarfélag og teygir arma sína vítt og breitt um Þingeyjarsýslur.

Þegar til umræðu kom innan stjórnar Framsýnar að minnast með einhverjum hætti þeirra tímamóta að 100 ár eru liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Vonar, kom fljótlega upp sú hugmynd að gefa út bók með völdum ljóðum eftir konuna sem fyrst viðraði hugmyndina um stofnun baráttusamtaka alþýðukvenna á Húsavík.

Björg Pétursdóttir var vel þekkt fyrir ljóðagerð sína, en aðeins örfá ljóða hennar hafa birst opinberlega. Lífið fór heldur óblíðum höndum um Björgu, sem eignaðist níu börn, en lifði sex þeirra. Það fer ekki framhjá neinum er les ljóð Bjargar hversu vel ritfær þessi ómenntaða alþýðukona var, en ljóð hennar veita okkur innsýn í heim fátækrar verkakonu á einum mesta umbrotatíma í sögu íslenskrar þjóðar.

Ágætu konur!

Konurnar sem stofnuðu Von fylgdu hjartanu og blésu á þá meinlegu hugsanavillu sem ríkt hafði um aldaraðir í karllægum heimi að konur væru ekki jafnsettar körlum. Sú hugsun er sem betur fer á undanhaldi, ekki hvað síst fyrir það að konur sjálfar eru orðnar meðvitaðri um réttindi sín. Fyrir rúmlega 100 árum sátu karlar á rökstólum inn á hinu háa Alþingi Íslendinga og ræddu um hvort konur þessa lands væru þess verðugar að öðlast kosningarétt. Það náði loks fram að ganga, þó með takmörkunum til að byrja með, enda var það af sumum talinn mikill ábyrgðarhlutur að leyfa slíkt.

Eftir miklar þjóðfélagsbreytingar og baráttu í meira en heila öld hafa konur öðlast rétt sem fullgildir þegnar samfélagsins. Það deilir enginn lengur um rétt kvenna til skólagöngu, um kosningarétt kvenna, þátttöku kvenna í atvinnulífinu og réttindi kvenna eru vörðuð með lögum. Í dag eru vissulega aðrar aðstæður, forsendur á vinnumarkaði hafa breyst og munu breytast, en enn eru baráttumálin mörg þau sömu og þau voru fyrir heilli öld.

Straumar réttindabaráttu kvenna sameinuðust í einum farvegi í Verkakvennafélaginu Von og Kvenfélagi Húsvíkur er konur lögðu sitt að mörkum til að skapa betra samfélag. Máttur okkar kvenna liggur einmitt í þeirri samvinnu og samstöðu sem hefur frá upphafi verið eitt beittasta vopn kvennabaráttunnar. Við þurfum ekki allar að hugsa eins, klæða okkur eins , eða kjósa sama flokkinn. Það er einmitt margbreytileikinn sem er helsti styrkur okkar. Við skulum jafnframt hafa hugfast að sagan er okkar megin, gefum aldrei afslátt á réttindum okkar og munum að allir dagar eru baráttudagar.

Ég óska ykkur gleðiríks þings kæru konur og hafið hjartans þakkir fyrir allt ykkar óeigingjarna starf í þágu samfélagsins. Störf ykkar eru ómetanleg og jafnframt einkennandi fyrir öll þau mannúðarfélög kvenna sem svo lengi hafa starfað án þess að vera áberandi í þjóðfélaginu.

Að lokum langar mig að lesa lítið ljóð úr ljóðabók Bjargar Pétursdóttur og jafnframt að nefna að Framsýn færði Kvenfélagasambandi Suður -Þingeyinga bókina að gjöf, ætlaða til eignar fyrir fulltrúa á þessu þingi. Bókina er því að finna meðal fundargangna ykkar og við vonumst til að þið njótið lestursins.

Ljóðið sem ég ætla að lesa heitir: „Lóukoma“.

 Ertu komin ljúfa lóa

lyndi voru til að fróa

syngja ljóð um landið snjóa,

leiða vor í hjartað inn,

allir sönginn elska þinn.

Þú ert sumars sendiboði,

sælli daga morgunroði,

þó hér ríki vetrarvoði

þú vandar Drottni lofsönginn.

Vertu hingað velkomin.

Verið velkomnar kæru konur og takk fyrir mig.