Vís-arar í fótboltastuði

Það vakti athygli starfsfólks á Skrifstofu stéttarfélaganna hversu myndarlega uppábúnir starfsmenn VÍS á Húsavík voru í dag. Tilefnið var vitanlega fyrsti leikur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem fer fram á morgun en þá mun liðið berjast við landslið Argentínu.

Eins og augljóst er þá voru þeir kumpánar í banastuði yfir þessu öllu saman enda stórt tilefni. Ekki var annað að heyra á þeim en að sigurmöguleikar íslenska liðsins séu með ágætasta móti á morgun.

Þrátt fyrir að við hinum megin á skrifstofunni höfum ekki tekið stemninguna alla leið eins og starfsmenn VÍS tökum við heilshugar undir baráttukveðjur þeirra til strákanna í Rússlandi.

Eins og sjá má voru okkar menn merktir í bak og fyrir og bjartsýnin sveif yfir vötnum. Hvort tölustafurinn sé merki um spá þeirra fyrir sætið sem íslenska liðið lendir í leiknum skal þó ósagt látið.