Gagnlegur fundur SGS – Áróðurs auglýsingar ASÍ skotnar í kaf af fræðimanni

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands fór fram á Bifröst í Borgarfirði fyrir helgina, um var að ræða tveggja daga vinnufund. Fundurinn fór vel fram. Formaður og varaformaður Framsýnar voru á fundinum. Í umræðum um kjaramál fór formaður Framsýnar yfir undirbúning félagsins vegna komandi kjaraviðræðna og lagði mikla áherslu á að félögin innan Starfsgreinsambandsins mótuðu saman kröfugerð sem þau færu síðan fram með gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Hann sagðist ekki trúa öðru en að með nýrri forystu Eflingar yrði Flóabandalagið lagt niður, það ætti ekki að vera þannig að Starfsgreinasambandið færi klofið í kjaraviðræðurnar í haust nema að áherslur félaganna væru ólíkar. Hann taldi mikilvægt að menn gerðu tilraun til þess að móta sameiginlega kröfugerð. Þá þyrfti aðkoma stjórnvalda að samningagerðinni að vera skýr. Framsýn kallar auk þess eftir umtalsverðum kerfisbreytingum þar sem horft verði til hagsmuna almennings en ekki fjármálakerfisins.

Formaður fór yfir áherslur félagsins þar sem kallað er eftir vaxtalækkunum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. Það kom líka skýrt fram hjá formanni að Framsýn vill að samið verði um krónutölu hækkanir en ekki í prósentum þar sem prósentu hækkanir væru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerðu auk þess ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Eitt af þeim málum sem var á dagkrá fundarins var kynning hjá Stefáni Ólafssyni prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um þróun ójöfnuðar á Íslandi síðustu áratugi út frá viðamiklum rannsóknum sínum. Í lokin á þeirri kynningu fór hann yfir þau hræðsluáróðursmyndbönd sem forysta ASÍ hefur verið að deila á samfélagsmiðlum . Það eru ekki ýkjur að segja að eftir yfirferð Stefáns var boðskapur forseta ASÍ og margumræddra myndbanda gjörsamlega jarðaður og má segja að Stefán Ólafsson hafi gjörsamlega rassskellt forseta og forystu ASÍ enda kom fram í máli hans að í grundvallaratriðum væru sá boðskapur sem fram kemur í myndböndum frá ASÍ kolrangur og stæðist ekki skoðun. Framsýn tekur heilshugar undir þau orð sem Stefán Ólafsson viðhafði að það væri eins og myndböndin frá ASÍ kæmu frá forystu Samtaka atvinnulífsins en ekki forystu verkafólks! Þessi niðurstaða frá prófessornum er algerlega í anda þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið frá Framsýn, Verkalýðsfélagi Akraness, Eflingar og VR hvað þessi hræðsluáróðursmyndbönd varðar. Það þarf engum að koma á óvart að Framsýn, VR og Verkalýðsfélag Akraness hafi lagt fram vantraust á forseta ASÍ enda ljóst að hann vinnur gegn hagsmunum félagsmanna sinna eins og þessi afhjúpun á erindi frá Stefáni Ólafssyni prófessor sannar. Til viðbótar má geta þess að formaður Framsýnar spurði þá formenn innan Starfsgreinasambandsins sem sitja í miðstjórn fyrir sambandið hvort þeir hefðu vitað af auglýsingunum. Í máli þeirra koma fram að þau hefðu vitað af þeim og í máli þeirra sumra kom fram að mjög skiptar skoðanir hefðu verið innan miðstjórnar með auglýsingarnar. Í þessu ljósi er málið miklu alvarlegra, það er að þrátt fyrir að hluti miðstjórnarmanna hafi lagst gegn áróðursmyndböndunum hafi þau samt sem áður verið birt.

 

Erindi Stefáns Ólafssonar vakti mikla athygli á fundinum svo ekki sé meira sagt.

Það var mikið spjallað á fundinum enda mikið í gangi innan verkalýðshreyfingarinnar um þessar mundir. Hér hafa þau Vilhjálmur Birgisson formaður VA og Sólveig Anna formaður Eflingar dregið sig til hliðar en þau hafa unnið vel saman síðan Sólveig Anna tók við fjölmennasta stéttarfélaginu innan SGS í vor.

Að sjálfsögðu áttu Sólveig Anna og formaður Framsýnar einnig gott samtal sem þoldi dagsljósið. Sólveig Anna hefur áhuga fyrir því að heimsækja Framsýn í sumar.

Sigríður formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar tók þátt í fundinum.