Hver vill vekja verðbólgudrauginn? Eftir Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar á Húsavík, Ragnar Þór Ingólfsson formann VR og Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akranes.

Frá því að Seðlabanki Íslands tók upp 2,5% verðbólgumarkmið árið 2001 hefur bankanum aðeins tekist að halda verðbólgu innan marka á þremur tímabilum. Það tókst fyrstu tíu mánuði ársins 2003 og í mars 2005 en svo urðu umskipti í árangri Seðlabankans að halda verðstöðugleika í kjölfar hruns. Eitt lengsta tímabil frá stofnun Seðlabankans árið 1961 hefur varað nú síðustu fjögur ár þar sem tekist hefur að halda verðbólgu undir 2,5% markinu.

Hagsmunir almennings.
Óþarft ætti að rifja upp aðdraganda þess að verðtryggingu var komið á fót, en það var m.a. gert í því skyni að verja eignir lífeyrissjóða og réttindi sjóðfélaga fyrir raunrýrnun höfuðstóls. Ljóst er hverjir hagsmunir almennings eru – enda eru 83% íbúðarlána verðtryggð en hið sama á ekki við um laun hinna sömu skuldara, sem eru í óverðtryggðum krónum. Ef verðbólgudraugurinn kemst á kreik mun eigið fé í húsnæði fólks rýrna og kaupmáttur alltof lágra launa minnka.

Hagsmunir spákaupmanna.
Ekki líta þó allir verðbólguna sömu augum – því verðtrygging felur óhjákvæmilega í sér tækifæri til spákaupmennsku til skamms tíma. Fjárfestingafélög á borð við Gamma hafa keypt gríðarlegt magn húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, aðallega fyrir hönd umbjóðenda sinna. Gamma, sem fær m.a. tekjur af hækkun húsnæðisverðs í gegnum þóknanir í eignastýringu, hefur hag af áframhaldandi þenslu á húsnæðismarkaði, sem m.a. veldur verðbólgu. Athyglisvert er að fulltrúar Gamma hafa gert kröfu um að Seðlabankinn afnemi bindiskyldu á erlendu innflæði fjármagns. Þannig sjá Gamma-menn fyrir sér að geta haldið við þenslu á húsnæðismarkaði með því að bjóða erlendum spákaupmönnum inn á markaðinn til að viðhalda verðhækkunum á húsnæði nú þegar það hefur tekið að lækka lítilega. Bankarnir þrír hafa lengi haldið úti skökkum verðtryggingarjöfnuði, sem þýðir að þeir hafa keypt skuldir af almenningi sem eru verðtryggðar til langs tíma en fjármagna sig sjálfir með óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum til skamms tíma, svo að hagnaður myndast þegar verðbæturnar skila sér um leið og verðbólgan fer aftur af stað. Nú þegar ekkert hefur bólað á verðbólgunni í fjögur ár er erfiðara að græða á daginn og grilla á kvöldin. Nú er fyrirtækið Framtíðin sem er stýrt af Gamma nýlega komið inná lánamarkað og bjóða hávaxta skammtímalán og verðtryggð húsnæðis og námslán.

Er bið spákaupmanna að ljúka?
Því er augljóslega innbyggð eftirspurn meðal ákveðinna afla eftir því að verðbólgudraugurinn láti á sér kræla á ný og Seðlabankinn sofni á verðinum. Það eru ekki umbjóðendur okkar sem halda úti þeirri eftirspurn enda hafa þeir fyrst og fremst hag af því að Seðlabankanum takist lögboðið ætlunarverk að halda við verðstöðugleika. Nær enginn árangur náðist á verðbólguvaktinni óslitið í rúm 50 ár – frá stofnun Seðlabankans þar sem þrír pólitískt ráðnir Seðlabankastjórar réðu iðulega ríkjum og þar til seðlabankastjóri var faglega ráðinn í kjölfar bankahruns og fagleg peningastefnunefnd var sett á laggirnar.

Bið spákaupmanna virðist þó senn á enda þar sem skipunartími Más Guðmundssonar rennur út á næsta ári og ráða þarf nýjan seðlabankastjóra. Ráðningarferli nýs aðstoðarseðlabankastjóra er hins vegar þegar hafið á vegum forsætisráðherra. Og viti menn, í hæfnisnefndina hefur Gamma fengið sinn eigin fulltrúa, nýstiginn úr stöðu yfirmanns efnahagsráðgjafar fyrirtækisins! Friðrik Már Baldursson hefur beinlínis verið skipaður formaður nefndar sem mun raða upp umsækjendum í stöðu aðstoðarseðlabankastjóra – og takmarka val forsætisráðherra eins og slíkum nefndum er ætlað. Friðrik Már hefur áður rekið erindi spákaupmanna gegn almannahagsmunum eins og frægt er þegar Viðskiptaráð Íslands fékk þá Richard Portes, prófessor frá London Business School, til þess að telja m.a. íslenskum lífeyrissjóðum trú um að allt væri í stakasta lagi með íslensku bankana, einungis 10 mánuðum áður en þeir féllu.

Jafnvel þótt litið væri fram hjá þessum lið á starfsferli Friðriks Más liggur fyrir að hann hætti störfum hjá Gamma skömmu áður en hann settist í sæti formanns hæfisnefndar jafnvel nokkrum dögum áður en hann var skipaður. Samkvæmt Viðskiptablaðinu í síðustu viku hætti Friðrik Már “nýlega” störfum hjá Gamma sem hefur ekki svarað fyrirspurn hvenær það gerðist.

Kerfi í kreppu.
Kjarabarátta snýst ekki bara um kaupmátt launa heldur fyrst og fremst um réttláta skiptingu kökunnar sem næst einungis fram með kerfisbreytingum. Að okkar mati er það hrein ögrun við verkalýðshreyfinguna og almenning að forsætisráðherra skuli velja til þessa afdrifaríka verkefnis mann sem er svo augljóslega nátengdur gríðarlegum sérhagsmunum. Þeir sérhagsmunir eru vitaskuld í senn andstæðir almannahagsmunum.

Öllum, sem fylgst hafa með efnahagsmálum, má ljóst vera að Friðrik Már Baldursson er samkvæmt þessu vanhæfur sem formaður hæfisnefnda fyrir lykilstöður Seðlabanka Íslands – þegar litið er til dómaframkvæmdar um vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar. Þær eru náskyldar hæfisreglum réttarfars, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar 17. maí sl. í máli nr. 752/2017 er tengdist einum bankanna en tengsl hins vanhæfa héraðsdómara við bankann voru mun minni en tengsl Friðriks Más við Gamma. Áhrif vanhæfis í slíkum tilvikum eru að stöðuveiting er væntanlega ógildanleg. Embættisfærslur af því tagi af hendi forsætisráðherra geta ekki annað en vakið upp vantraust meðal almennings og minnkandi trú á sjálfstæði Seðlabankans.

Margoft hefur landslýður þurft að treysta á dómstóla – innlenda sem erlenda – til þess að ná rétti sínum vegna athæfis bankakerfisins, svo sem vegna Icesave og gengistryggðra lána, svo að dæmi séu nefnd.

Þarf að treysta á dómstóla?
Ætla kjörnir fulltrúar og þingbundin stjórnvöld að láta þetta endurtaka sig? Þarf launafólk virkilega enn að stóla á dómskerfið í stað kjörinna fulltrúa til þess að krefjast réttar síns til þess að búa við óspillt, gegnsætt og faglegt kerfi sem gætir almannahagsmuna?

Forysta verkalýðshreyfingarinnar mun ekki sitja hjá. Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formann Verkalýðsfélags Akranes.