Ungliðaráð Framsýnar, Framsýn-ung kom saman til fundar í gær til að fara yfir starf ráðsins á komandi mánuðum. Samkvæmt lögum Framsýnar skal vera starfandi ungliðaráð innan félagsins sem skipað er til eins árs í senn. Skipunin skal fara fram á fundi stjórnar- og trúnaðarráðs.
Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið skal starfa á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG. Ungliðaráðið skal starfa náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar stéttarfélags. Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Til viðbótar má geta þess að Ungliðaráðinu er boðið að sitja alla fundi á vegum stjórnar og/eða trúnaðarráðs Framsýnar. Ungliðaráð Framsýnar skipa í dag; Sunna Torfadóttir, Ásrún Einarsdóttir, Eva Sól Pétursdóttir, Heiða Elín Aðalsteinsdóttir og Guðmunda Steina Jósefsdóttir sem jafnframt er formaður ráðsins. Eins og sjá má eru stúlkur áhugasamari um að taka að sér krefjandi störf er tengist kjörum og réttindum ungs fólks. Eitt er víst að núverandi stjórn Framsýnar leggur mikið upp úr því að hafa öflugt starf ungliða innan félagsins, það er jú framtíðin.
Þessar eru harðar í horn að taka og eiga eftir að verða miklir leiðtogar í framtíðinni, þetta eru þær Ásrún Einarsdóttir og Sunna Torfadóttir stjórnarmenn í Framsýn-ung. Ekki er ólíklegt að þær verði fulltrúar Framsýnar á ungliðafundi sem Starfsgreinasamband Íslands hefur boðað til í lok maí á Bifröst í Borgarfirði.