Í vikunni kom nýr framkvæmdastjóri Sjóbaðanna á Húsavík í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna. Hann heitir Sigurjón Steinsson og tók við sjóbaðaverkefninu síðla árs 2017. Sigurjón kom við til að fara yfir sviðið er varðar kaup og kjör starfsmanna í svona starfsemi og að sjálfsögðu einnig til þess að kynna sig og starfsemina.
Sigurjón segir að ágætur gangur sé á framkvæmdum við sjóböðin og stefnt sé á opnun um miðjan júní í sumar. Óhætt er að segja að hér sé á ferðinni spennandi verkefni sem muni auka afþreyingarmöguleika á Húsavík fyrir ferðamenn sem og heimamenn.