Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir 92 ára ýtumann að störfum, en Viggó Brynjólfsson frá Skagaströnd hefur þar líklega meiri reynslu en flestir aðrir. Á jarðýtum hefur hann unnið við margvíslegar framkvæmdir síðan 1947 og geri aðrir betur. Viggó var fenginn til að grípa í verk í nokkra daga og aðstoða starfsmenn Ósafls sem vinna nú hörðum höndum að veglagningu Illugastaðavegar í tengslum við Vaðlaheiðargöng. Fréttaritari Framsýnar var á ferðinni í Fnjóskadal í veðurblíðunni á dögunum og fékk að smella mynd af kappanum sem að sjálfsögðu var á stærstu jarðýtunni og gaf hinum strákunum ekkert eftir. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af framkvæmdum við göngin Fnjóskadalsmegin.