Formaður Framsýnar flutti ávarp í upphafi hátíðarhaldanna á Húsavík í gær. Hér má lesa það.
Ágætu hátíðargestir,
Það var nokkuð táknrænt þegar ég settist niður til að semja þetta ávarp að heyra hamarshögg, hljóð frá borvélum, vélsögum og stórvirkum vinnuvélum fyrir utan gluggann. Ég heyrði ekki í sjálfum mér, slíkur var hávaðinn þegar ég sat við tölvuna við skriftir.
Inn á milli mátti heyra fuglasöng, svona til að minna á komu sumarsins og að framundan væri annarsamur tími við hreiðurgerð hjá smáfuglunum.
Já, það eru margir í framkvæmdahug um þessar mundir með bjartsýnina að leiðarljósi, það er bæði menn og dýr.
Reyndar finnst mér eins og 1. maí 2016 hafi verið í gær, svo fljót líður tíminn og endurspeglar öflugt starf stéttarfélaganna þar sem hver dagur ber með sér nýjar áskoranir í starfi félaganna.
Dagurinn í dag, 1.maí spilar stórt hlutverk í baráttu alþýðunnar víða um heim fyrir bættum kjörum, jöfnuði og réttlæti. Baráttudeginum er ætlað að þjappa fólki saman um réttlátar kröfur og sjónarmið. Oft finnst okkur að þessi barátta gangi alltof hægt en það góða er að okkur miðar áfram þrátt fyrir að brekkan framundan sé oft á tíðum snarbrött og nánast óklífanleg.
Málið er einfalt, við megum aldrei gefast upp. Rödd okkar verður að heyrast þrátt fyrir að hún virki stundum þannig á handhafa auðvaldsins að við séum að skemma fyrir markmiðum þeirra með óheppilegu uppistandi. Við séum boðflennur.
Enda var það tilgangurinn í upphafi þegar samþykkt var á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París 1889 að gera 1. maí að alþjóðlegum frídegi verkafólks. Það er að verkafólk léti í sér heyra og stæði fyrir baráttufundum í sumarbyrjun á hverju ári. Á Íslandi fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí 1923 undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.
Íslenska verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina tekið á mörgum mikilvægum málum undir rauðu flaggi.
Eitt af þeim málum sem gengur sem rauður þráður í gegnum sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi í 100 ár er krafan um mannsæmandi húsnæði á sanngjörnum kjörum. Þetta verkefni hefur komið til okkar í verkalýðshreyfingunni af fullum þunga með reglulegu millibili í heila öld. Og það hrópar enn í dag.
Það var af þessari ástæðu sem ASÍ og BSRB réðust í stofnun Bjargs – íbúðafélags í fyrra. Það þarf að lyfta grettistaki til að þjóðin komist út úr þeim ógöngum sem hún hefur ratað í í húsnæðismálum. Við Íslendingar viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem gott og öruggt húsnæði þykir sjálfsögð mannréttindi – ekki forréttindi.
Það þarf því ekki að koma mikið á óvart að Alþýðusamband Íslands hafi samþykkt að yfirskrift 1. maí í ár verði: „Húsnæðisöryggi – sjálfsögð mannréttindi.“
Félagar:
Eins og kunnugt er, er verulegur uppgangur víða í Þingeyjarsýslum. Þar kemur ekki síst til uppbygging í ferðaþjónustu og í byggingariðnaði er tengist ýmsum framkvæmdum í héraðinu.
Þá er loksins búið að slá í gegn um Vaðlaheiði eftir heldur erfiða meðgöngu og mikla og neikvæða fjölmiðlaumræðu. Þegar göngin verða klár síðla árs 2018 opna þau á betri samgöngur milli Eyjafjarðar og sveitarfélaganna austan Vaðlaheiðar. Atvinnusvæðið verður sterkara og stærra og öryggi varðandi heilbrigðisþjónustu eykst til muna enda Víkurskarðið oft verið erfiður farartálmi. Með bættum samgöngum og öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi er Norðurlandið orðið mjög samkeppnishæft við höfuðborgarsvæðið varðandi búsetuskilyrði og þar með almenn lífsgæði.
Í smá gríni eða alvöru má einnig nefna að það verður ekki dónalegt fyrir Eyfirðinga að fá nú loksins almennilegt loft frá Þingeyingum í gegnum göngin í skurðinn sem ber nafnið Eyjafjörður. Það er full ástæða fyrir okkur að gleðjast með þeim og megi þeir njóta þingeyska loftsins.
Miklar áskoranir fylgja því fyrir stéttarfélögin að fylgjast með atvinnulífinu á hverjum tíma, það er að allir þeir fjölmörgu verktakar sem koma að framkvæmdunum í Þingeyjarsýslum sem og aðrir fari eftir lögum og reglum sem gilda á vinnumarkaðinum á Íslandi.
Vissulega er þetta ekki auðvelt verk enda kemur hluti af verktökunum frá löndum þar sem réttindi verkafólks eru fyrir borð borin og aðild að stéttarfélögum er ekki almenn, reyndar mjög lítil. Okkur reiknast til að um 2000 starfsmenn hafi komið að framkvæmdunum á svæðinu, það er á öllu félagssvæðinu. Það er umfram þá sem eru hér við störf að staðaldri.
Strax í upphafi framkvæmdanna gerðu stéttarfélögin sér fulla grein fyrir því að eftirlitið yrði að vera öflugt horfandi til framkvæmdanna á Kárahnjúkum og við byggingu álversins á Reyðarfirði á sínum tíma þar sem ýmislegt fór úr skorðum.
Meðan á framkvæmdunum stóð voru reglulega fluttar neikvæðar fréttir í fjölmiðlum af gangi mála og alltof mikið var um kjarasamningsbrot og vanefndir varðandi aðbúnað og öryggi starfsmanna. Það var gúrkutíð hjá fjölmiðlum.
Með þessa vitneskju í farteskinu ákváðu stéttarfélögin að hafa frumkvæði að því að tryggja eins og hægt væri að þessi saga endurtæki sig ekki í Þingeyjarsýslum.
Frá upphafi hafa stéttarfélögin átt mjög gott samstarf við verkkaupa og verktaka á svæðinu. Reyndar á það ekki við um alla verktakanna, dæmi eru um að þeir hafi ætlað sér að sniðganga kjarasamninga og lög á Íslandi.
Stéttarfélögin hafa brugðist hart við slíkum undirboðum í góðu samstarfi við aðra eftirlitsaðila s.s. lögreglu, ASÍ, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóra.
Dæmi eru um að fyrirtæki hafi hrökklast í burtu eftir afskipti stéttarfélaganna. Hér erum við að tala um fyrirtæki sem framið hafa mjög alvarleg brot gagnvart starfsmönnum og jafnvel verið grunuð um mansal. Við höfum að mestu sloppið við alvarlegar hótanir frá þessum erlendu verktökum en höfum þó fundið fyrir undirliggjandi hótunum. Þannig er að við vitum ekki alltaf við hverja við erum að eiga.
Fyrir liggur að starf okkar nýtur virðingar meðal þeirra starfsmanna sem hér hafa verið við störf. Þeir skynja að stéttarfélögin búa yfir mikilli þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins og eru tilbúin að veita þeim upplýsingar og aðstoð eftir þörfum.
Ég vil nota tækifærð og þakka samstarfsfólki mínu á skrifstofunni fyrir einstaka fórnfýsi á undanförnum mánuðum og árum með það að markmiði að láta hlutina ganga upp og stuðla þar með að öflugu starfi stéttarfélaganna í þágu félagsmanna og nærsamfélagsins. Langir vinnudagar hjá starfsmönnum, helgarvinna og tilfærsla á sumarfríum milli orlofsára hefur verið sjálfsagt mál og hefur verið mætt með bros á vör. Öðruvísi væri ekki hægt að halda uppi öflugu starfi sem ætti að vera öðrum stéttarfélögum góð fyrirmynd.
Til fróðleiks má einnig geta þess að stéttarfélögin hafa ekki bara kappkostað að verja hagsmunni vinnandi fólks sem hingað hefur komið til tímabundina starfa.
Félögin hafa einnig beitt sér fyrir því að erlendu verktakarnir nýti sér þjónustu fyrirtækja og þjónustuaðila á svæðinu og skrái jafnframt starfsmennina með heimilisfestu í héraðinu, það er á framkvæmdasvæðum sveitarfélaganna. Það hefur tryggt fólksfjölgun og auknar útsvarstekjur fyrir sveitarfélögin. Við teljum að þessi vinna hafi skilað tilætluðum árangri þegar við horfum á fjölgun íbúa og auknar tekjur sveitarfélaganna í héraðinu.
Þrátt fyrir að framkvæmdirnar séu nú í fullum gangi og ljúki að mestu innan árs koma stéttarfélögin til með að halda áfram sínu öfluga starfi.
Ég nefni sérstaklega mikilvægi þess að vel takist til með nýju verksmiðjuna á Bakka. Verksmiðju sem verður mikil lyftistöng fyrir Þingeyinga enda verði rétt haldið á málum. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt af umhverfismálum, við eigum heldur ekki að veita neinn afslátt af launakjörum starfsmanna bara fyrir það eitt að fá verksmiðjuna til Húsavíkur.
Þegar áform um byggingu verksmiðjunnar voru kynnt í upphafi af eigendum hennar var skýrt tekið fram að allt yrði gert til að tryggja umhverfismálin og að launakjör starfsmanna yrðu með sambærilegum hætti og þekkist í sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.
Framsýn og Þingiðn hafa átt í viðræðum við stjórnendur PCC á Íslandi um kjör starfsmanna. Krafan hefur verið skýr, það er að fyrirtækið standi við stóru orðin sem gefin voru í upphafi varðandi kjör og aðbúnað starfsmanna. Við förum ekki fram á annað.
Ég gef mér að PCC ætli sér að að starfa hér í sátt og samlyndi við samfélagið enda er það alltaf vænlegast til árangurs fyrir alla. Það er ekki eftirspurn eftir umræðu eða umfjöllun fjölmiðla eins og verið hefur um verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ þar sem nánast allt hefur farið úrskeiðis sem á annað borð getur farið úrskeiðis. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að vel takist til með starfsemi PCC á Bakka. Það er leiðarljós stéttarfélaganna.
Að lokum þetta. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa ákveðið að tileinka þessa hátíð í dag baráttu eftirlaunafólks og öryrkja fyrir bættum kjörum og réttlæti. Staðreyndin er nefnilega sú að það hallar verulega á þessa hópa og allt of margir í þeirra röðum búa ekki við réttlæti eða viðunandi framfærslu.
Við hjá Framsýn höfum í vetur haldið nokkur velheppnuð málþing m.a. um stöðu eftirlaunafólks sem var sérstaklega vel sótt. Greinilegt var að fundarmönnum fannst á sig hallað og þörf væri á umræðu um stöðu ört stækkandi hóps eftirlaunafólks.
Framsýn hefur komið þeim skilaboðum á framfæri við Alþýðusambands Íslands að sambandið stigi fram og berjist við hlið eftirlaunafólks hvað varðar þeirra baráttumál til að tryggja þessum hópi áhyggjulaust ævikvöld sem og öryrkjum.
Þá hefur Framsýn hug á því að verða fyrirmyndarfélag er viðkemur því að félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku haldi sem mest af réttindum hjá félaginu meðan þeir þurfa á þeim að halda um leið og við hvetjum önnur stéttarfélög innan ASÍ og BSRB að stiga þessi skref með félaginu.
Við ætlum okkur að halda merkjum þessara hópa á lofti, teljum það reyndar vera skyldu okkar, þetta er jú hópurinn sem markaði sporin fyrir okkur hin. Við eigum ekki að láta fenna í þeirra spor eins og okkur komi ekki við hvað þau gerðu til að gera okkar lífsgæði að því sem þau eru í dag.
Ég þakka gott hljóð og sett hér með samkomuna.