Frjáls samningsréttur- burt með SALEK

Stjórn Framsýnar, stéttarfélags samþykkti í dag að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu kjaramála og SALEK samkomulagið sem félagið varar eindregið við enda hættulegt tilvrurétti stéttarfélaga. 

Ályktun um kjaramál
-Framsýn vill SALEK samkomulagið út af borðinu-

 Framsýn, stéttarfélag tekur heilshugar undir með samtökum launafólks sem gagnrýnt hafa haftastefnu Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands og endurspeglast í SALEK samkomulaginu.

 Framsýn telur SALEK samkomulagið hættulega aðför að frelsi og tilverurétti stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör félagsmanna og þess sem atvinnulífið þolir á hverjum tíma. Félagið telur einnig að ekki eigi að vera á forræði ákveðins þrýstihóps að ákveða launamyndun í þjóðfélaginu. Í ljósi þess er mikilvægt að afgreiða SALEK samkomulagið út af borðinu þegar í stað.

Opinberir starfsmenn eiga að sjálfsögðu að hafa heimild til að semja um sín kjör á eigin forsendum sem oftar en ekki taka mið af löngu og kostnaðarsömu háskólanámi. Þannig á fiskvinnslufólk einnig að hafa fullan rétt á að sækja launahækkanir í vasa sjávarútvegsins, sem malað hefur gull á síðustu árum og skilað tugum milljarða til hluthafa. Á sama tíma hefur fiskvinnslufólk setið eftir enda innrammað inn í SALEK samkomulagið líkt og annað verkafólk.  Það eiga allir að standa jafnir þegar kemur að því að semja um kaup og kjör, burtséð frá atvinnugreinum.

Norræna samningamódelið hefur verið rómað af forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem er merkilegt í ljósi þess að það er mjög umdeilt á Norðurlöndunum. Samningalíkanið er ekki síður umdeilt innan verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi samanber ályktun 42. þings ASÍ frá 26.-28. október 2016.

Á Íslandi er almenn þátttaka í stéttarfélögum, vinnumarkaðurinn þroskaður og flestir launþegar starfandi eftir kjarasamningum.  Því miður er því ekki þannig farið hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Þar stendur stór hópur launþega utan stéttarfélaga og án kjarasamninga.

               Er þetta fyrirkomulagið sem ber að innleiða á Íslandi, NEI TAKK