Framsýn kallar eftir frekari sameiningu lífeyrissjóða

Innan Framsýnar stéttarfélags hefur verið umræða um starfsemi lífeyrissjóða sem félagið á aðild að, það er sameining sjóða meðal aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, réttindi sjóðfélaga og þann mikla mun sem er á réttindum sjóðsfélaga innan almennra og opinberra lífeyrissjóða. Inn í þessa umræðu hefur blandast umræða um jöfnun lífeyrisréttinda sem boðuð hefur verið með svokölluðu Salek samkomulagi. Þá má geta þess að lífeyrissjóðir hafa verið að sameinast samanber nýlegt dæmi þegar Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður sameinuðust.

Á fundi stjórnar Framsýnar þann 19. október 2016 var samþykkt að beina þeim tilmælum til stjórnar Stapa lífeyrissjóðs að hafin verði athugun á vegum sjóðsins varðandi frekari sameiningu sjóðsins við aðra lífeyrissjóði. Flestir félagsmenn Framsýnar greiða í dag til Stapa, lífeyrissjóðs.

Stapi byggir í dag tilveru sína á lífeyrissjóðum sem hafa verið sameinaðir undir nafni sjóðsins á Norður- og Austurlandi. Að mati Framsýnar er mikilvægt að þessari vegferð verði haldið áfram með það að markmiði að ná niður rekstrarkostnaði og tryggja um leið sjóðfélögum aukin réttindi.

Hvað það varðar leggur Framsýn til að stjórn Stapa láti fara fram skoðun á því hvort ekki megi hagræða í starfsemi sjóðsins með sameiningu við aðra lífeyrissjóði þannig að auka megi um leið réttindi sjóðfélaga til lífeyris.

Tilgangur sameiningar við aðra sjóði getur verið að auka áhættudreifingu, hagræði í rekstri, draga úr rekstrartengdri áhættu og auka möguleika á bættri ákvarðanatöku í fjárfestingum í því skyni að bæta hag sjóðfélaga.

Í bréfi Framsýnar til stjórnar Stapa í dag væntir félagið þess að erindi félagsins fái gott brautargengi í stjórn sjóðsins og niðurstaða úr athuguninni verði tekin til kynningar og afgreiðslu á ársfundi Stapa lífeyrissjóðs árið 2017.