Fjölmenni í sjómannadagskaffi: Jónas og Hermann heiðraðir í dag

Mikið líf og fjör hefur verið á Húsavík um helgina enda hátíðarhöld í gangi vegna Sjómannadagsins. Tveir sjómenn voru heiðraðir á Húsavík í dag. Heiðrunin fór fram í Húsavíkurkirkju. Að þessu sinni voru Jónas Jónsson og Hermann Ragnarsson heiðraðir. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sagði nokkur orð og rakti sjómannsferil þeirra félaga sem lengi störfuðu til sjós.

Ágætu tilheyrendur!
Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn.

Reyndar okkur öllum enda hefur sjávarútvegur í gegnum tíðina verið einn okkar mikilvægasti atvinnuvegur og fært okkur gjaldeyri og tekjur til að byggja upp grunnstoðir þjóðfélagsins eins og mennta- og heilbrigðiskerfið.

Þrátt fyrir að útgerð á svæðinu hafi dregist töluvert saman á undanförum áratugum skipar dagurinn sem áður ákveðinn sess í lífi okkar Þingeyinga enda tengjumst við sjómennskunni á einn eða annan hátt.

Sjórinn gefur en hann hefur líka tekið sinn toll, því miður.

Þeirri merkilegu hefð er viðhaldið víða um land að heiðra sjómenn á Sjómannadaginn, sjómenn sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og fengsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla.

Fyrir nokkrum árum var leitað til Sjómannadeildar Framsýnar um að taka að sér heiðrunina á Sjómannadaginn og þótti sjálfsagt að verða við því.

Í dag ætlum við að heiðra tvo sjómenn sem báðir eru miklir heiðursmenn og þóttu góðir samherjar til sjós svo vitnað sé í ummæli sjómanna sem voru með þeim um borð í fiskiskipum á sínum tíma.

Þetta eru þeir Hermann Ragnarsson frá Húsavík og Jónas Jónsson úr Aðaldal.

Jónas Jónsson:
Jónas Jónsson er fæddur á Knútsstöðum 29. desember 1944. Hann er sonur Jóns Einarssonar og Guðfinnu Karlsdóttur.

Jónas ólst upp á Knútsstöðum með móðir sinni, afa og ömmu þar sem stundaður var hefðbundinn búskapur. Jónas er því ekki kominn úr hefðbundinni sjómannafjölskyldu við Skjálfanda heldur er hann komin af bændum úr Aðaldal.

Jónas var giftur Guðnýju Káradóttur og eignuðust þau þrjú börn, fyrir átti Guðný tvö börn en hún lést árið 2014, blessuð sé minning hennar.

Þrátt fyrir að alast upp á bökkum einnar fegurstu laxveiðiár landsins, Laxár í Aðaldal, leitaði hugur Jónasar frekar út á sjó með troll en að bökkum Laxár með veiðistöng.
Enda fór það svo að hann réð sig sem háseta á bát frá Grindavík árið 1963, þá 19 ára gamall. Báturinn bar nafnið Gullfari GK sem var um 30 tonna eikarbátur.

Jónas fylgdi straumnum, ungir menn úr Þingeyjarsýslum leituðu suður á vertíð á þessum tíma. Jónas stóð ekki hjá, heldur reimaði á sig skóna, pakkaði niður og hélt suður með sjó á vit nýrra ævintýra.

Eftir vertíðina skilaði Jónas sér aftur heim í Knútsstaði, enda stóð hann fyrir búskap á bænum með sínu fólki. Nokkrum árum síðar, það er árið 1974, ákveða Jónas og Guðný að bregða búi.

Í kjölfarið ræður hann sig á Hörpu GK sem gerð var út á net og loðnutroll auk þess að starfa við það sem féll til í landi hér norðan heiða. Á þessum árum kynntist hann einnig handfæra- og grásleppuveiðum á smábátum frá Húsavík.

Árið 1978 ákvæður Jónas að gera sjómennskuna að aðalstarfi og ræður sig á togarann Júlíus Havsteen ÞH frá Húsavík.

Eftir góð ár á Júlíusi fór Jónas yfir á togarann Kolbeinsey ÞH þar sem hann var í nokkur ár til viðbótar hjá útgerðinni Höfða hf. Frá þeim tíma hefur Jónas komið víða við sem háseti, kokkur, vélavörður, netamaður og bátsmaður.

Hann var á bátum og togurum sem gerðir voru út frá Húsavík eins og Aroni ÞH, Geira Péturs ÞH og Þórunni Havsteen ÞH.

Líkt og er með góða og eftirsótta sjómenn eins og Jónas átti hann auðvelt með að fá góð pláss á bátum og togurum frá helstu verstöðum landsins.

Hann var á Helgu RE, Hafnarröstinni ÁR, Gnúp GK, Heiðrúnu GK, Eyborginni EA og Mánatind GK. Á þessum skipum kynntist Jónas flestum veiðum og veiðafærum.

Jónas var með góðum skipstjórum í gegnum sinn farsæla sjómannsferil eins og hann segir sjálfur. Hann nefnir sérstaklega Benóný Antonsson, Jóhann Gunnarsson, Hermann Ragnarsson, Bjarni Eyjólfsson, Hinrik Þórarinsson, Jónas Sigmarsson og Eirík Sigurðsson.

Jónas hætti til sjós árið 2004 og hefur síðan starfað í landi við ýmislegt s.s. vélavinnu, vörubíla- og rútubílaakstur.

Þegar stjórn Sjómannadeildar Framsýnar fundaði á dögunum til að velja tvo sjómenn sem skyldu heiðraðir á sjómannadaginn, kom nafn Jónasar strax upp.

Þá varð einum stjórnarmanni að orði sem starfaði lengi með Jónasi til sjós; „Hann hefur alltaf verið mikill snillingur Knútsstaðabóndinn, hann er vel að því kominn að vera heiðraður fyrir sín störf“.

Já svona lýsa samherjar Jónasi fyrir hans störf og samveru um borð í fiskiskipum þar sem miklu máli skiptir að góður andi ríki enda starfa menn oft við krefjandi og erfiðar aðstæður sem kallar á samheldni áhafnarinnar.

Jónas Jónsson hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.

Hermann Ragnarsson:
Hermann Ragnarsson er fæddur á Húsavík 6. september 1940. Hann er sonur Ragnars Jakobssonar og Jónínu Hermannsdóttur.

Hermann var giftur Svanlaugu Björnsdóttur. Þau eignuðust þrjú börn. Svanlaug lést árið 1996, blessuð sé minning hennar.

Þegar saga sjómennsku á Húsavík er skoðuð er aðdragandinn oftast sá sami. Fjaran togar unga drengi niður að sjávarsíðunni, þar var allt að gerast, þar var lífæð þorpsins. Samfélagið við Skjálfanda stóð og féll með því sem sjórinn gaf.

Hermann var ekki gamall eða hár í loftinu þegar hann fór að þvælast með félögum sínum niður í fjöru, það er niður fyrir bakkann á Húsavík. Þar fylgdust þeir með sér eldri mönnum að störfum, við beitningu og uppstokkun á línu og fylgdust með bátunum koma fulllestaða að landi eftir fengsælar veiðiferðir. Þetta heillaði unga drengi sem þá gerðu sér ekki grein fyrir því að sjómennskan ætti eftir að verða þeirra ævistarf.

Einn af þeim sem stóð í sjósókn á þessum tíma var Ásgeir Kristjánsson, eða Blöndi, eins og hann var kallaður. Hann tók að kenna Hermanni að beita þegar hann var innan við fermingaraldur. Það hjálpaði honum síðar til að fá vinnu við beitningu hjá Jóhanni frænda sínum Hermannssyni sem gerði út trilluna Brand ÞH. Hermann beitti hjá frænda sínum í tvö sumur með skóla, þá 13 til 14 ára gamall.

Við 18 ára aldur útvegaði Kristján Ásgeirsson á Húsavík Hermanni plássi á Stefáni Árnasyni SU sem var 60 tonna eikarbátur frá Fáskrúðsfirði. Báturinn var gerður út frá Keflavík, þar var Hermann um veturinn og beitti í landi.

Hugurinn leitaði heim og réð Hermann sig á Smára ÞH á síldarnót sumarið 1958 en Smári var 65 tonna eikarbátur. Þegar síldarvertíðinni lauk um haustið beitti Hermann fyrir útgerð Smárans um veturinn, bæði á Húsavík og í Sandgerði, en algengt var á þessum tíma að bátar frá Húsavík færu suður og gerðu út frá Suðurnesjunum yfir vetrarvertíðina enda mikil fiskigengd á miðum við Suðurlandið og því von um góða afkomu.

Eftir veruna á Smára ÞH réð Hermann sig á Helgu ÞH sem var um 50 tonna eikarbátur. Líkt og var með Smára ÞH var Helga ÞH gerð út frá Húsavík hluta úr ári og svo hluta úr ári frá Sandgerði á vetrarvertíð.

Árið 1961 ræður Hermann sig á Héðinn ÞH sem var 150 tonna stálbátur og gerður var út á neta og línuveiðar. Héðinn ÞH þótti mikið aflaskip enda fór það svo að skipið var aflahæst það árið yfir landið á vetrarvertíðinni.

Hermann átti eftir að vera á fleiri bátum eins og Dagfara ÞH og Andvara ÞH áður en hann kaupir hlut í útgerð á Húsavík.

Hermann réði sig á Glað ÞH um áramótin 1969 sem var 36 tonna eikarbátur, ári síðar kaupir hann sig inn í útgerðina ásamt Jóhanni Kr. Jónssyni og verður skipstjóri um tíma. Á þessum tíma hafði Hermann orðið sér út um svokallað „pungapróf“ sem veitti honum leyfi til að stjórna bátum upp að ákveðinni stærð.

Ákvörðun var tekin um að selja Glað ÞH til Þórshafnar 1973 og kaupa þess í stað öflugri bát sem fékk nafnið Jón Sör ÞH en það var um 60 tonna eikarbátur. Báturinn kom til heimahafnar um áramótin 1973-74.

Að útgerðinni stóðu auk Hermanns, Pétur Olgeirsson og Jóhann Kr. Jónsson. Nokkrum árum síðar, það er árið 1977, skiptir útgerðin Jóni Sör ÞH út og kaupir þess í stað Arneyju KE öflugan trébát af Óskari Karlssyni útgerðamanni ættuðum frá Húsavík. Um ári síðar var ákveðið að hætta útgerðinni og var Arney KE seld árið 1978.

Við söluna á skipinu urðu tímamót í lífi Hermanns sem þá var fertugur að aldri en þá settist hann á skólabekk. Það er í Iðnskólann á Húsavík. Þaðan útskrifaðist hann sem vélvirki. Í kjölfarið hóf hann störf á Vélaverkstæðinu Foss síðar Vélaverkstæðinu Grím áður en hann settist í svokallaðan helgan stein árið 2008.

Þær eru ófáar ferðirnar sem Hermann hefur farið niður í vélarúm báta og skipa þau ár sem hann starfaði sem vélvirki á vélaverkstæðum á Húsavík, enda var Hermann á heimavelli þegar kom að því að gera við vélbúnað um borð og þótti auk þess afar vandvirkur. Ég leyfi mér hér að vitna í Pétur Olgeirsson skipstjóra en hann sagði um Hermann að hann hafi ætið haldið vélarrúminu gangandi af mikilli fagmennsku.

Þegar saga Hermanns er skoðuð kemur í ljós að hann var mjög fjölhæfur, hann var háseti, kokkur, vélavörður, stýrimaður og skipstjóri á sínum gæfusama sjómannsferli.
Hermann tók þátt í miklu björgunarafreki við Flatey á Skjálfanda þegar flutningaskipið Hvassafellið strandaði við eyjuna þann 7. mars árið 1975 í brjáluðu veðri. Hermann var í áhöfn Jóns Sör ÞH sem lagði sig í töluverða lífshættu við björgunina. Fyrir það verður seint þakkað.

Sjómannsferill Hermanns hefur alla tíð verið farsæll og honum hefur auðnast að vera með góðum skipstjórnum til sjós; Ég nefni Þórhall Karlsson, Sigurð Sigurðsson, Maríus Héðinsson, Björn Sörensson, Aðalstein Árna Baldursson, Birgi Erlendsson og Pétur Olgeirsson.

Hermann Ragnarsson hafðu líkt og Jónas kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.

sjodagur0616 003

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar flutti ávarp í Húsavíkurkirkju og fór yfir feril Hermanns og Jónasar til sjós.

sjodagur0616 006

Þessir heiðursmenn voru heiðraðir við hátíðlega athöfn, Jónas Jónsson og Hermann Ragnarsson.

sjodagur0616 010

Eftir guðþjónustuna, þar sem heiðrun sjómanna fór fram, var lagður blómsveigur að minnismerki látina sjómanna.

sjodagur0616 018

Athöfnin í dag var tilkomumikil.

sjodagur0616 026

Kirkjukórinn söng að venju fallega í góða veðrinu á Húsavík í dag.

 

sjodagur0616 037

Fjölmenni sá ástæðu til þess að koma í sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna eftir athöfnina í kirkjunni.

sjodagur0616 040

Boðið var upp á skemmtiatriði í sjómannadagskaffinu. Lára Sóley og Halti tóku lagið og sungu fyrir gesti.

sjodagur0616 023

Bjarni Eyjólfsson var ásamt fleirum á svæðinu en hann var um árabil skipstjóri á togurum frá Húsavík. Með honum á myndinni er Kristján Þorvarðarson varaformaður Sjómannadeildar Framsýnar.

sjodagur0616 044

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Pétur Helgi og Hörður komu í kaffi en þeir ásamt Bjarna Eyjólfs störfuðu lengi við sjómennsku hér á árum áður.