Staðan tekin með Landsneti

Fulltrúar frá Landsneti voru á Húsavík á dögunum og funduðu meðal annars með fulltrúum Framsýnar en framundan eru stórframkvæmdir á vegum Landsnets á svæðinu. Þess má geta að tilboð í undirbúningsvinnu vegna byggingar tveggja 220 kílóvolta (kV) háspennulína á Norðausturlandi, Þeistareykjaínu 1 og Kröflulínu 4, voru opnuð hjá Landsneti fyrir helgina. Á heimasíðu Landsnets kemur fram að tveir verktakar hafi boðið í báða verkhlutana og verkið í heild en tveir buðu bara í undirbúning Kröflulínu 4.
Verkið felur í sér gerð vegslóðar með línunum tveim sem lagðar verða milli Kröflustöðvar, Þeistareykja og Bakka við Húsavík, ásamt gerð hliðarslóða og vinnuplana við möstur, efnisútvegun og framleiðslu undirstaða, stagfesta og stálhluta og jarðvinnu við niðurlögn undirstaða og stagfesta. Línuleiðin er rúmur 61 km og möstrin 193 talsins og skal undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4 lokið 1. ágúst 2016 en allri undirbúningsvinnu vegna beggja línanna skal lokið að fullu 1. október 2016.

Tilboð yfir kostnaðaráætlun
Kostnaðaráætlun fyrir undirbúningsvinnu línanna tveggja hljóðar upp á rúmlega 810 milljónir króna og var útboðið þrískipt. Hægt var að bjóða sérstaklega í undirbúning hvorrar línu fyrir sig en einnig verkið allt – en þó því aðeins að viðkomandi hefði þá líka skilað inn tilboðum í undirbúning hvorrar línu fyrir sig.

Alls bárust tilboð frá fjórum aðilum, þar af frá tveimur í undirbúning beggja línanna sem og verkið í heild en tveir aðilar buðu bara í undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1. Árni Helgason átti lægra tilboðið í undirbúning hennar, um 469,5 milljónir króna (kostnaðaráætlun 386,4 milljónir) en G. Hjálmarsson átti lægsta tilboðið í undirbúning Kröflulínu 4, um 448,5 milljónir króna (kostnaðaráætlun 430 milljónir).

Landsnet mun nú fara yfir tilboðin og bera þau saman. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu verður síðan gengið til samninga við þann eða þá aðila sem eiga hagstæðasta tilboð, að því gefnu að hann eða þeir uppfylli kröfur um hæfi.

Aukið orkuöryggi á Norðausturlandi
Tenging Þeistareykjavirkjunar við iðnaðarsvæðið á Bakka og tenging við meginflutningskerfið er umtalsverður þáttur í þeirri iðnaðaruppbyggingu sem hafin er á Norðausturlandi. Öflug tenging við meginflutningskerfið tryggir jafnframt enn betur orkuöryggi íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Verklok við byggingu línanna eru áætluð haustið 2017. Unnið verður við slóðagerð og undirstöður í sumar en vinna við yfirbyggingu og strengingu leiðara fer að mestu fram sumarið 2017. (landsnet.is)

trunnamskeid0216 019
Formaður Framsýnar er hér ásamt fulltrúum Landsnets. Þeir eru Þórarinn Bjarnason og Árni Sæmundsson.