Færri feður taka fæðingarorlof

Ráðstefna jafnréttisnefndar ASÍ um vinnumarkaðinn og jafnréttisbaráttuna var haldin 12. nóvember s.l. Þar voru haldin fjölmörg erindi sem öll áttu það sameiginlegt að fjalla um stöðu kynjanna á vinnumarkaði.Fulltrúar fræðasamfélagsins, unga fólksins og hreyfingarinnar gerðu grein fyrir rannsóknum, sögðu frá eigin reynslu og ekki síst hlutverki verkalýðshreyfingarinnar í baráttunni um jafnrétti kynjanna.

Meðal þess sem var til umræðu var staða fæðingarorlofsins undir spurningunni hvort að sá árangur sem náðst hefur með nýjum fæðingarorlofslögum frá árinu 2000 sé árangur í glatkistuna. ASÍ tók virkan þátt í undirbúningi löggjafar um fæðingar- og foreldraorlof sem tók gildi árið 2000 þar sem orlofið var lengt úr sex í níu mánuði. Þar voru þrír mánuðir bundnir föður, þrír móður og þrem geta foreldrar skipt að vild.

Allt fram til ársins 2008 var ánægjuleg þróun í þá átt að fleiri feður nýttu sér allan rétt sinn og margir tóku einnig hluta af sameiginlegum rétti. Þessi þróun varð til þess að efla jafnrétti á vinnumarkaði þar sem atvinnurekendur gátu ekki gert ráð fyrir því að aðeins móðirin væri frá vinnu vegna fæðingar barns, heldur var faðirinn það einnig. Eitt af markmiðum laganna var að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu – og atvinnulíf og virtist það sannarlega vera að takast.

Eftir hrunið haustið 2008 voru gerðar breytingar á greiðslufyrirkomulagi fæðingarorlofsgreiðslna. Þakið á greiðslur sem tekið var upp 2004 var lækkað í þrígang þannig að í dag snertir það tæplega helming feðra og 19% mæðra og að sjálfsögðu hefur slík skerðing veruleg áhrif! Samkvæmt tölum frá Fæðingarorlofssjóði kemur greinilega í ljós að skerðing á greiðslum og nýting feðra á réttindum sínum fer saman og hrapar verulega.

Staðan í dag er að færri feður taka orlof og þeir sem taka orlof taka færri daga. Færri feður taka langt samfellt orlof og fleiri mæður lengja sitt orlof. Því er markmið upphaflegu laganna um tengsl barnsins við báða foreldra og að karlar og konur geti samþætt atvinnu- og fjölskyldulíf í verulegri hættu. Árangurinn er á leiðinni í glatkistuna og því hefur ASÍ krafið stjórnvöld um endurreisn og útvíkkun kerfisins. Líflegar umræður áttu sér stað milli framsögumanna og ráðstefnugesta.

Ráðstefnan var haldinn í tilefni þess að í ár eru 60 frá því að fyrsta jafnlaunaráðstefna ASÍ var haldin, þar sem verkakonur komu saman og ræddu réttinda- og kjaramál sín. 40 ár eru frá því að íslenskar konur lögðu niður störf þann 24 október til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra og og krefjast bættra kjara og í ár fagna íslenskar konur 100 ára afmæli kosningaréttar.

Ráðstefnan var vel sótt, og var það samdóma álit þátttakanda að margt áhugavert hafi komið fram, umræður mjög líflegar og allir fundið eitthvað sem vakti sérstakan áhuga. Fulltrúar í jafnréttisnefnd ASÍ telja að markmiði ráðstefnunnar hafi verið náð. Það var að vekja þátttakendur til umhugsunar um stöðu kynjanna á íslenskum vinnumarkaði út frá yfirskriftinni „Eru verðmætin í jafnréttinu falin?“

Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttis- og umhverfismálum