Félagsleg undirboð –Aftur „2007“ eða verra?

Myndaður hefur verið starfshópur á vegum Alþýðusambands Íslands til að takast á við vaxandi vanda vegna félagslegra undirboða og svartar atvinnustarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Formaður Framsýnar situr í starfshópnum fh. Starfsgreinasambands Íslands.

Nýskipaði starfshópurinn fundaði í Reykjavík í vikunni og fór yfir vandann sem blasir við og hvernig best væri að takast á við þennan stóra vanda. Ljóst er að framundan er mikil vinna hjá verkalýðshreyfingunni að sporna gegn undirboðum og svartri atvinnustarsemi. Formannafundur ASÍ sem verður haldinn í næstu viku mun taka málið til sérstakrar umfjöllunar á fundinum.

Svo virðist sem svört atvinnustarfsemi og undirboð beinist ekki síst að erlendu vinnuafli og ungu fólki. Færst hefur í vöxt að fyrirtæki séu með svokallaða erlenda „sjálfboðaliða“ í vinnu upp á vatn og brauð. Þá hefur verkalýðshreyfingin orðið að skipta sér af erlendum ungmennum í starfsnámi á Íslandi þar sem ekki hefur verið fylgt eftir íslenskum kjarasamningum.

Afar mikilvægt er að tekið verði á þessum málum með föstum tökum enda afar óeðlilegt að fyrirtæki getið skapað sér samkeppnisforskot með svikum og ólöglegri starfsemi sem byggir m.a. á því að standa ekki skil á sköttum og gjöldum til samfélagins auk þess að búa starfsfólki ömurleg starfsskilyrði.

Stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins verða kölluð til ábyrgðar enda varða undirboð og svört atvinnustarfsemi ekki bara verkalýðshreyfinguna. Myndin tengist ekki fréttinni.

Undirboð og svört atvinnustarfsemi verða til umræðu á formannafundi ASÍ í næstu viku enda lítur verkalýðshreyfingin þessi mál mjög alavarlegum augum.