Fullt í sumarferð stéttarfélaganna

Stéttarfélögin standa fyrir skemmti- og fræðsluferð upp að Holuhrauni helgina  22. – 23. ágúst 2015. Um er að ræða tveggja daga ferð. Gist verður í Þorsteinsskála. Lagt verður af stað stundvíslega kl. 8 frá skrifstofu stéttarfélaganna laugardaginn 22. ágúst. Ekið sem leið liggur um Kísilveg í Mývatnssveit. Stefnan tekin austur á bóginn í Möðrudal. Þar verður gert klósett- og kaffistopp fyrir þá sem það vilja. Ekið í átt að Kreppu um Krepputungu og yfir brú á Jökulsá við Upptippinga og þaðan í Drekagil. Áð verður á áhugaverðum stöðum á leiðinni. Drekagil skoðað áður en stefnan verður tekin að Holuhrauni.

Þegar komið er nær Vaðöldu, fyrir “hornið” á Dyngjufjöllum, sjáum við til þess nýja landslags sem varð til í eldgosi í Holuhrauni 2014/15. Í bakgrunninn eru jöklarnir. Næst Holuhrauni er Dyngjujökull, og hærra til vinstri eru stórfengleg Kverkfjöll. Við munum fylgja jaðri hins nýja hrauns og stoppa meðal annars við aðal gíginn og ganga þar um.

Þegar við snúum þaðan verður langt liðið á daginn en okkar enda- og gististaður er Þorsteinsskáli í Herðubreiðarlindum. Þar verður boðið upp á grill í boði stéttarfélaganna og skemmtun fram eftir kvöldi. Lagt verður af stað heim á leið fyrir hádegi á sunnudeginum eftir góða skoðun á nágrenni Herðubreiðarlinda. Stoppað verður við Grafarlandaá, í Hrossaborg og víðar, allt eftir veðri og stemmingu í hópnum. Heimkoma áætluð seinnipart sunnudags. Ferðin er ætluð félagsmönnum stéttarfélaganna og mökum þeirra.

Fullt er í ferð stéttarfélaganna í Holuhraun síðar í þessum mánuði. Farið verður með Fjallasýn og verður Tryggvi Finnsson fararstjóri.