Fundað með LNS Saga á Þeistareykjum

Formenn Framsýnar og Þingiðnar funduðu í gær með fulltrúum frá verktakanum LNS Saga sem sér um uppbygginguna á Þeistareykjum. Formennirnir fengu kynningu á framkvæmdunum auk þess sem farið var yfir starfsmannamál og réttindi starfsmanna. Formennirnir notuðu auk þess tækifærið og funduðu með hluta starfsmanna. Annar fundur er fyrirhugaður á Þeistareykjum næstkomandi þriðjudag með LNS Saga og Landsvirkjun. Ljóst er að mikið er lagt upp úr góðum aðbúnaði starfsmanna auk þess sem öryggismál eru tekin alvarlega. Þá var ánægjulegt að sjá hvað allt er þrifalegt á svæðinu enda afar mikilvægt þar sem stöðvarhúsið er byggt í einstaklega fallegu landi. Um 60 starfsmenn voru við störf í gær og miðar verkinu vel. Búið er að koma upp vinnubúðum fyrir um 100 manns í gistingu auk mötuneytis og þá er unnið hörðum höndum við að koma upp notalegum setustofum, gufubaði og annari aðstöðu sem fylgir svona starfsemi s.s. þvottahúsi.  Markmið stéttarfélaganna er að fylgjast vel með framvindu mála og gera allt til þess að framkvæmdin gangi vel og að aðbúnaður og kjör starfsmanna verði eins góð og hægt er. Sjá myndir frá heimsókninni í gær: