Sitt sýnist hverjum – kjaramál til umræðu

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í gær ásamt trúnaðarmönnum félagsins á vinnustöðum og stjórnum deilda félagsins. Tilgangur fundarins var að fara yfir nýgerða kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands.Formaður félagsins, Aðalsteinn Árni, hafði framsögu um kjaramálin. Hann kom víða við og sagði frá aðdraganda samninganna, viðræðunum við SA og niðurstöðunni en nýr kjarasamningur var undirritaður 29. maí. Eftir framsögu formanns var orðið gefið frjálst. Ljóst er að mjög skiptar skoðanir eru með ágæti kjarasamningsins. Sérstök gagnrýni kom fram á þrjú atriði. Launataflan væri barn síns tíma þar sem búið væri að þjappa henni þannig saman að starfsreynsla væri ekki metin sem skyldi. Þá væri mjög sérstakt að lágmarkstekjutryggingin sem kæmi til 1. maí 2018 kr. 300.000 væri hærri en hæsti kauptaxtinn í launaföflunni, slíkt væri mjög sérstakt. Að endingu kom fram mjög hörð gagnrýni á samningsaðila að byrjunarlaun miðist við 20 ára aldur í stað 18 ára aldurs. Fundarmenn gengu svo langt að tala um mannréttindabrot. Formaður Framsýnar upplýsti að hann hefði lagst gegn þessari leið með því að greiða atkvæði gegn henni inn í samninganefnd Starfsgreinasambandsins. Fundarmenn lýstu yfir ánægju sinni með að formaður félagsins skyldi standa í lappirnar í þessu máli en gagnrýndu aðra fyrir að hafa látið þessa breytingu viðgangast. Rafræn atkvæðagreiðsla verður meðal félagsmanna um kjarasamninginn og hefst hún eftir helgina.

Miklar umræður urðu á fundi Framsýnar í gær um nýgerða kjarasamninga SGS/LÍV og SA. Framsýn stendur fyrir almennum kynningarfundum eftir helgina á Húsavík og á Raufarhöfn. Þá stendur starfsmönnum fyrirtækja til boða að fá fulltrúa frá Framsýn í heimsókn á vinnustaðina til að kynna samningana.

Formaður Framsýnar upplýsti í gær að hann hefði greitt atkvæði gegn því að breyta byrjunarlaunum starfsmanna úr 18 ára aldri í 20 ára aldur en megn óánægja er með þessa breytingu meðal verkafólks.

Mjög skiptar skoðanir eru með nýgerða kjarasamninga SGS/LÍV og SA. Það kom skýrt fram á fundi Framsýnar í gær.