Áskorun til ríkisstjórnar Íslands

Á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar í gær urðu miklar umræður um stöðu aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda. Ekki síst í ljósi þess að ríkistjórnin hefur ekki fallist á kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við hækkun lægstu launa.Að mati Framsýnar eru það mikil vonbrigði enda ríkir fullkomin óvissa hvort og þá hvernig þessar bætur muni hækka í kjölfar kjarasamningana. Krafa Framsýnar er að þessar bætur hækki til samræmis við hækkun lægstu launa skv. nýgerðum kjarasamningum. Fundurinn samþykkti að senda frá sér svohljóðandi áskorun til ríkistjórnar Íslands.

Áskorun til ríkisstjórnar Íslands

„Framsýn stéttarfélag skorar á ríkisstjórn Íslands, nú þegar kjarasamningar hafa verið lagðir fram á almennum vinnumarkaði, að tryggja að aldraðir , öryrkjar og atvinnuleitendur njóti jafnréttis og verði tryggðar sömu kjara¬leiðrétt¬ingar og öðrum hóp¬um sam¬fé¬lag¬sins.

Framsýn telur jafnframt eðlilegt að kjör aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda taki auk þess mið af viðurkenndum framfærsluviðmiðum.

Ljóst er að skattkerfisaðgerðir ríkisstjórnarinnar koma þeim hópum sem minnst hafa ekki til góða, í þeim hópum eru tugir þúsunda manna sem í engu hafa notið umtalaðs launaskriðs og vaxandi kaupmáttar.

Það er þjóð sem stendur meðal ríkustu þjóða heims til háborinnar skammar að halda ákveðnum hópum í þjóðfélaginu í fátækragildru á sama tíma og dregið er úr sköttum hjá þeim tekjuhærri.“

Áskorun til ríkistjórnar Íslands varðandi kjör aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda var samþykkt samhljóða á fundi Framsýnar í gær.

Menn voru hugsi yfir afstöðu ríkistjórnarinnar í málefnum aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda.

Ríkistjórnin telur sig hafa svigrúm til að lækka skatta á þeim tekjuhærri en ekki að leiðrétta kjör aldraðra, öryrkja og atvinnuleitenda til jafns við hækkanir í nýgerðum kjarasamningum SGS/LÍV 0g SA. Eins og sjá má hér að ofan lækka skattar um kr. 12.000 á mánuði hjá fólki með um 700.000 krónur á mánuði. Lítið fer fyrir skattkerfisbreytingum hjá þeim tekjulægri eins og sjá má á myndinni.