Formannafundur LÍV, Landssambands ísl. verzlunarmanna, var haldinn í Reykjavík 22. apríl sl. Vegna ófærðar tóku fulltrúar Framsýnar þátt í fundinum gegnum fjarfundabúnað. Tilefni fundarins var staðan í kjaraviðræðum. Kröfugerð LÍV var lögð fram í febrúar og hefur verið fundað nokkrum sinnum með fulltrúum SA síðan þá. Ljóst er að þeir fundir sem haldnir hafa verið hafa ekki skilað þeim árangri sem vænst var þrátt fyrir hófsama kröfugerð. Því var deilunni vísað til ríkissáttasemjara föstudaginn 17. apríl sl. og fyrsti fundur haldinn með ríkissáttasemjara nokkrum dögum síðar. Formannafundur LÍV lýsti yfir mikilli óánægju með þann seinagang sem verið hefur í viðræðum og þann litla vilja sem SA sýnir til þess að ná ásættanlegri niðurstöðu.
Það er því nokkuð ljóst að til tíðinda muni draga innan skamms og að félög innan LÍV muni leita eftir heimildum til aðgerða til þess að bregðast við. Ákveðið var að hvert félag mun hefja vinnu við undirbúning aðgerða og mun það skýrast nánar á næstum vikum. Í dag var síðan ákveðið að slíta viðræðum við SA eftir að haldinn var árangurslaus fundur hjá sáttasemjara. Þetta eru vissulega straumhvörf en var svo sem viðbúið. Þetta gerir það að verkum að aðildarfélög LÍV fara að undirbúa aðgerðir, sem vonandi verður til þess að SA fer að ræða um eitthvað sem skiptir máli.
Formaður og varaformaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar fara hér yfir málin. Það stefnir í átök hjá félagsmönnum sem falla undir þessa deild.