Samstaða á samstöðufundi í kvöld

Þrátt fyrir ömulegt veður á Húsavík var nokkuð góð mæting á samstöðufund sem Framsýn boðaði til í kvöld. Ófært var í héraðinu og því komust ekki félagsmenn úr nágreninu á fundinn en hópur fólks hafði boðað komu sína á fundinn úr sveitunum. Kraftur var í fundarmönnum sem vilja ekki gefa neitt eftir af kröfum Starfsgreinasambandins.  Á fundinum kom fram að Framsýn hefur átt í viðræðum við fyrirtæki um helgina og er þegar búið að handsala tvo samninga, þrír aðrir eru í burðarliðnum. Stjórn Framsýnar fékk fullt umboð til að halda viðræðunum áfram við þau fyrirtæki sem vilja semja við félagið á nótum SGS. Fundurinn samþykkti að álykta um stöðuna.

Ályktun
Um kjaramál

„Félagsfundur Framsýnar, haldinn sunnudaginn 26. apríl 2015 lýsir yfir fullri ábyrgð á hendur Samtökum atvinnulífsins, nú þegar stefnir í verkföll hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands næstkomandi fimmtudag.

Það að Samtök atvinnulífsins skuli ekki ganga að kröfum Starfsgreina-sambandsins um kr. 300.000 lágmarkslaun innan þriggja ára er með ólíkindum. Mörg fyrirtæki á félagssvæði Framsýnar hafa lýst því yfir að þau vilji semja við Framsýn á þessum nótum. Þá liggur fyrir að fyrirtæki víða um land styðja kröfur Starfsgreinasambands Íslands.

Fundurinn fagnar samstöðu félagsmanna sem endurspeglast í afstöðu þeirra til verkfalls. Um 96% félagsmanna samþykktu verkfallsboðunina enda verði ekki búið að semja fyrir 30. apríl. Þá samþykkir fundurinn að veita stjórn Framsýnar fullt umboð til að semja við þau fyrirtæki, sem þess óska, á nótum kröfugerðar Starfsgreinasambands Íslands.“

Formaður Framsýnar fór yfir stöðu mála í dag og samningaviðræður sem staðið hafa yfir um helgina við nokkur fyrirtæki á félagssvæðinu.

Setið og hlustað á boðskap formanns um það sem allt snýst um, kjaramál.