Segja kröfu um 300.000 króna lágmarkslaun léttvæga

Framsýn, stéttarfélag samþykkti í morgun að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu kjaraviðræðna á almenna vinnumarkaðinum. Samtök atvinnulífsins bjóða 3,5% launahækkun meðan stjórnendur fyrirtækja taka til sín tugi prósenta í launahækkanir þessa dagana. Sjá ályktun:

Ályktun
Um stöðu kjaraviðræðna

„Framsýn, stéttarfélag fagnar því svigrúmi til launahækkana sem er til staðar í sjávarútvegi og endurspeglast í arðgreiðslum HB-Granda til eigenda fyrirtækisins upp á 2,7 milljarða. Svo ekki sé talað um desertinn til stjórnarmanna HB-Granda sem fellst í 33% hækkun stjórnarlauna.

Staða atvinnulífsins sem endurspeglast í afkomu HB-Granda gerir kröfu Starfsgreinasambands Íslands um 300.000 króna lágmarkslaun, innan þriggja ára, léttvæga.

Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hljóta að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að endurskoða kröfugerðina til hækkunar í ljósi þessara tíðinda. Hagnaður fyrirtækja á ekki einungis að flæða til eigenda í formi arðgreiðslna og ofurlauna.

Framsýn, stéttarfélag skorar á félagsmenn að greiða atkvæði með boðun verkfalls en atkvæðagreiðslu lýkur næsta mánudag. Sýnum samstöðu og upprætum spillinguna sem viðgengst meðal stjórnenda fyrirtækja og fjármálafyrirtækja í landinu sem skammta sér laun eftir þörfum á kostnað lágtekjufólks.“

Um þessar mundir flæða arðgreiðslur til eigenda HB-Granda meðan almennum starfsmönnum er boðið upp á íspinna með kaffinu.