Eins og fram kemur í frétt á heimasíðunni fyrr í dag var formanni Framsýnar Aðalsteini Árna boðið í heimsókn í GPG í gær, fimmtudag. Formaður fór yfir stöðuna í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins og boðaðar aðgerðir félagsins til að knýja á um launahækkanir til félagsmanna. Starfsmenn notuðu tækifærið og spurðu formann út í kjaramálin og væntanlega atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir. Fram kom að kjörgögn munu berast til félagsmanna eftir helgina og hægt verður að kjósa til 20. apríl. Þá sagði Aðalsteinn að þeir starfsmenn sem þyrftu á aðstoð að halda eða hefðu ekki aðgengi að tölvu gætu komið við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kosið. Opið væri milli kl. 08:00 og 16:00. Þá yrði opið til kl. 19:00 þann 20. apríl. Hann skoraði á starfsmenn GPG að kjósa um boðun verkfalls.
Það fór vel á með formanni Framsýnar og starfsmönnum GPG á Húsavík.
Menn hlustuðu og spurðu formann Framsýnar út í fjölmörg atriði er vörðuðu kjaramál og verkfallsátök.
Starfsmenn notuðu tækifærið og kusu sér nýjan trúnaðarmann, Marcin Florczyk, sem hér er með formanni Framsýnar.
Svo er spurning hvort atkvæðagreiðslan um trúnaðarmanninn verði kærð í ljósi þess að kjörkassinn hafi ekki verið löglegur sem sjá má á myndinni. Maður bara spyr í ljósi þess að Samtök atvinnulífsins hótuðu að kæra aðildarfélög Starfsgreinasambandsins fyrir ólöglega atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls sem endaði þannig að Starfsgreinasambandið hætti við atkvæðagreiðsluna og boðaði nýja þar sem hvert og eitt stéttarfélag greiðir atkvæði um verkfallsboðunina.