Greiðum atkvæði

Formaður Framsýnar skrifar grein um kjaramál í Skarp í dag. Hér má lesa greinina. Kjaraviðræður milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hafa staðið yfir í nokkrar vikur án niðurstöðu. Kjarasamningar verkafólks á almenna vinnumarkaðinum og starfsfólks sem starfar við ferðaþjónustu voru lausir um síðustu mánaðamót. Krafa Starfsgreinasambandsins, sem Framsýn á aðild að, hefur verið að hækka lægstu launin þannig að þau samræmis opinberum viðmiðum um framfærsluþörf einstaklinga. Þau eru í dag um kr. 300 þúsund á mánuði. Þessu markmiði verði náð innan þriggja ára. Að mati verkalýðshreyfingarinnar er það mikill ábyrgðarhluti að launakjör verkafólks skuli vera með þeim hætti að full vinna dugi fólki ekki til framfærslu. Slíkt er mannréttindabrot.

Andnauð SA
Samtök atvinnulífsins hafa þegar hafnað alfarið kröfum Starfsgreinasambandsins og telja þær óraunhæfar, aðeins sé í boði að hækka lægstu launin um 3 til 4% sem gerir um 8.000 króna hækkun á mánuði miðað við fullt starf. Seðlabankinn tekur undir skoðanir Samtaka atvinnulífsins og segir svigrúmið vera afar lítið til launahækkana. Það er meðan bankastjórar stóru bankanna baða sig í ofur¬¬¬launum og digrum kaupaukagreiðslum til viðbótar. Það virðist hafa farið algjörlega fram hjá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að laun annarra hópa s.s. lækna, kennara og flugmanna hafa hækkað umtalsvert meira en sú hörmung sem samið var um í síðustu kjarasamningum verkafólks þegar gengið var frá um 2,8% hækkun við litla hrifningu verkafólks. Verkafólk á rétt á leiðréttingu og launahækkunum til jafns við aðra. Samtök atvinnulífsins hafa gengið svo langt í sínum áróðri að halda því fram að kröfur Starfsgreinasambandsins séu ávísun á annað hrun, það er ef gengið verði að kröfum sambandsins um hækkun lægstu launa. Þetta eru afar ósmekklegar fullyrðingar af hálfu Samtaka atvinnulífsins og í raun mjög alvarlegt þegar verkafólki er stillt upp sem brotamönnum við hliðina á fjárglæframönnum sem komu Íslandi á hliðina í hruninu 2008. Áróðurinn á sér greinilega engin takmörk þegar Samtök atvinnulífsins eiga í hlut.

Greiðum atkvæði
Hjá Framsýn, stéttarfélagi eru tæplega 500 félagsmenn á kjörskrá og fá þeir kjörgögn í hendur á næstu dögum. Heimilt verður að greiða atkvæði frá mánudeginum 23. mars til kl. 24:00 mánudaginn 30. mars. Það sem er merkilegt við þessa atkvæðagreiðslu er að nú geta félagsmenn greitt atkvæði með rafrænum hætti. Félagsmenn Framsýnar fara inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins www.sgs.is og smella á „Verkfall 2015“. Þar geta viðkomandi félagar greitt atkvæði með því að nota lykilorð sem þeim verður gefið upp í pósti. Framsýn hefur ekki boðið upp á þessa leið áður við atkvæðagreiðslu og verður því forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum félagsmanna, auðveldara getur það ekki orðið. Félagsmenn sem hafa ekki aðgengi að tölvu er velkomið að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og greiða atkvæði. Einnig þeir félagsmenn sem telja sig hafa rétt til að greiða atkvæði en fá ekki kjörgögn í hendur eftir helgina. Ég vil nota tækifærið og hvetja félagsmenn til að greiða atkvæði um verkfallsboðunina. Talið verður upp úr sameiginlegum potti þeirra 16 stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins sem standa saman að atkvæðagreiðslunni. Afar mikilvægt er að félagsmenn sendi skýr skilaboð til Samtaka atvinnulífsins, það er að þeir láti ekki bjóða sér hvað sem er og séu tilbúnir að fylgja eftir sínum kröfum að fullri hörku. Það gera menn best með því að samþykkja verkfallsheimildina einum rómi, já er ábyrg afstaða.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar, stéttarfélags