Af hverju samningur til eins árs?

Fram eru komnar kröfur þeirra aðildarfélaga og sambanda innan Alþýðusambands Íslands sem hafa innanborðs tekjulægstu hópana í þjóðfélaginu vegna yfirstandandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Kjarasamningar þessara hópa eru lausir eftir viku.

Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins riðu á vaðið með því að leggja fram metnaðarfulla kröfugerð. Eins og fram kemur á heimasíðu sambandsins „var skýr niðurstaða samninganefndar SGS að hugsa kjarabaráttuna sem nú stendur yfir til þriggja ára eins og kröfugerð SGS gerir ráð fyrir, en í henni er skýr krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára.“

Mikil ánægja er innan Framsýnar með kröfugerð sambandsins enda byggð m.a. á kröfugerð félagsins. Þá komu nýlega fram upplýsingar frá Alþýðusambandi Íslands um verulegan mun á tekjum lágtekjufólks á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Munurinn er talinn vera um 30%. Þessi mikli launamunur var til staðar fyrir ári síðan þegar gengið var frá 2,8% almennri launahækkun sem Framsýn mótmælti harðlega á þeim tíma enda innistaða hjá fyrirtækjum og stofnunum að greiða hærri laun. Því miður tókst ekki á þeim tíma að mynda breiða samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar um hækkun lægstu launa, hvað þá að jafna þau við sambærilega hópa á Norðurlöndunum.

Nú ber svo við að Flóabandalagið og VR tala fyrir skammtímasamningi. Rökin eru að ekki sé hægt að treysta ríkisstjórninni og vegna gjaldeyrishafta í landinu.

Það jákvæða er að Flóinn og VR tala fyrir sambærilegum hækkunum og Starfsgreinasambandið í skammtímasamningi eða um 40 þúsund króna hækkun á mánuði. Framsýn hefur hins vegar lagt þunga áherslu á þriggja ára samning í anda kröfugerðar Starfsgreinasambandsins sem feli í sér stöðugleika og umtalsverðar hækkanir til félagsmanna sem flestir verma botninn í kjarasamningsbundnum launatöflum.

Afar mikilvægt er að breið samstaða náist meðal þeirra stéttarfélaga sem hafa innanborðs fólk á lægstu kauptöxtunum um markmið Starfsgreinasambandsins að ná fram 300 þúsund króna lágmarkslaunum í þriggja ára samningi. Það verður ekki séð hvernig menn ætla að ná þessu markmiði í skammtímasamningi. Af hverju skyldi Samtök atvinnulífsins leggjast gegn þriggja ára samningi? Getur verið að það sé vegna þess að þeir telji það kostnaðarsamara fyrir atvinnulífið en kjarasamningur til eins árs?

Til viðbótar má geta þess að læknar og aðrir hópar sem samið hafa undanfarið hafa verið að semja til lengri tíma til að ná fram betri kjarasamningum. Þessa leið eigum við að feta félagsmönnum til hagsbóta.

Markmið Framsýnar er að samið verði til þriggja ára enda gangi Samtök atvinnulífsins að kröfugerð Starfsgreinasambandsins um 300 þúsund króna lágmarkslaun á samningstímanum.