“Grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum”

„Það þarf nauðsynlega að hækka lægstu launin og einnig leggjum við áherslu á að launatöflurnar verði endurskoðaðar, þannig að meira tillit verði tekið til starfsaldurs og álags. Fólk með tuttugu ára starfsreynslu er til dæmis rétt fyrir ofan byrjunarlaun, munurinn er allt of lítill,“ segir Jóna Matthíasdóttir formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags.

Aðalfundur deildarinnar var haldinn í síðustu viku og var stjórnin endurkjörin. Formaðurinn er kosinn til tveggja ára og þurfti ekki að kjósa formann á fundinum í ár. Kjaramálin voru mikið rædd á aðalfundinum og segir Jóna að kröfugerð deildarinnar hafi þegar verið send Landssambandi íslenskra verslunarmanna sem fer með samningaumboðið.

„Kröfugerðin verður væntanlega afhent atvinnurekendum í næstu viku og þá koma viðbrögðin í ljós. Hérna fyrir norðan voru haldnir fjölmennir fundir, þar sem félögum gafst kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er greinilega mikill hugur í okkar fólki, enda er grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum.“

Í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eru samtals 222 greiðendur, þar af eru konur 165. Jóna segir einsýnt að núverandi laun dugi ekki til framfærslu venjulegs heimilis.

Lambakjöt munaðarvara

„Þessi afstaða kom skýrt fram á aðalfundinum, lambakjöt er til dæmis munaðarvara. Við viljum krónutöluhækkanir á laun, sem er hagkvæmast fyrir fólk sem er á lægstu töxtunum. Miðað við viðbrögð vinnuveitenda við launakröfum Starfsgreinasambandsins býst ég við hörðum kjaravetri. Fólk einfaldlega lætur ekki bjóða sér þessi lágu laun lengur og vill leiðréttingu. Það þýðir ekkert að segja okkar að þeir sem eru á lægstu laununum setji þjóðfélagið á hausinn. Ef fyrirtæki getur ekki greitt mannsæmandi laun, er spurning hvort það á yfir höfuð að vera í rekstri.“

Launin lægri á Íslandi

Jóna bendir á nýja könnun, þar sem borin eru saman regluleg dagvinnulaun á almennum vinnumarkaði á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

„Þar kemur einfaldlega í ljós að dagvinnulaun verkafólks hér á landi eru allt að 30% lægri hér á landi en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Íslendingar bera sig gjarnan saman við nágrannaþjóðirnar og þessi könnun sýnir svart á hvítu að launin eru lægri á Íslandi. Þegar stjórnendur eru skoðaðir, kemur í ljós að launin á Íslandi eru 5% hærri á Íslandi. Og svo tölum við um að Ísland sé velferðarríki. Auðvitað á fólk ekki að þurfa að treysta á yfirvinnu, aukavinnu og akkorð til að framfleyta sér og sínum. Þannig er staðan engu að síður í dag.“

karlesp@simnet.is

Jóna Matthíasdóttir, formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar telur grundvallaratriði að fólk geti lifað af dagvinnulaunum. Deildin stóð fyrir góðum aðalfundi á dögunum.