Ánægð með samstöðuna innan SGS

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í dag. Að venju voru mörg mál á dagskrá fundarins. Miklar umræður urðu um kröfugerð Starfsgreinasambandsins sem fundarmenn voru ánægðir með enda í takt við framlagðar kröfur Framsýnar. Menn voru jafnframt sammála um mikilvægi þess að halda uppi málefnalegri umræðu um kröfugerðina sem byggir á sanngjörnum kröfum.  Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins koma Framsýn ekki á óvart en þeir hafa tjáð sig um kröfugerðina í fjölmiðlum eftir að hún var lögð fram í gær. Málflutningur þeirra er þeim ekki sæmandi og reyndar til skammar.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sem jafnframt er samninganefnd félagsins er ánægð með samstöðuna innan SGS.

Varaformaður Framsýnar kom með konfekt á fundinn með kaffinu í tilefni af kröfugerð aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem lögð var fram í gær.