Fjölmennur félagsfundur – Um hvað sömdu flugmenn?

Vel var mætt á félagsfund Framsýnar um kjaramál í gær. Setið var í flestum stólum. Í upphafi fundar fór formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, yfir síðustu kjarasamninga og viðræður Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um sérmál sem verið hafa til umæðu milli aðila á samningafundum í vetur. Þá fór hann yfir áróður Samtaka atvinnulífsins og seðlabankastjóra gegn hækkun lægstu launa og kallaði eftir upplýsingum frá Björgólfi Jóhannssyni formanni Samtaka atvinnulífsins og forstjóra Icelandair Group um hækkanir hjá flugmönnum en hann hefur neitað að gefa þær upp. Óstaðfestar fréttir herma að flugmenn hafi fengið rúmlega 20% launahækkun á sama tíma og formaður SA, sem samdi við flugmennina, talar fyrir 3% launahækkun til verkafólks í nafni stöðugleika.  Aðalsteinn vék að verkfallsaðgerðum og bað félagsmenn að búa sig undir þær í vetur. Félagið ætti um 160 milljónir í vinnudeilusjóði sem notaðar yrðu kæmi til verkfalls, allsherjarverkfalls eða verkfalla á einstökum vinnustöðum.

Eftir framsöguna var orðið gefið frjálst. Fjölmargir tóku til máls og tjáðu sig um fundarefnið. Í máli fundarmanna kom fram megn reiði út í þróun mála en aðildarfélög ASÍ sömdu um 2,8% launahækkun í árslok 2013. Frá þeim tíma hafa fjölmennir hópar s.s. kennarar, flugmenn og læknar samið um tugprósenta hækkanir.  Á fundinum var mótuð kröfugerð sem samninganefnd félagsins mun ganga endanlega frá á næstu dögum. Kröfugerðin ber með sér að félagsmenn Framsýnar krefjast sambærilegra hækkana og aðrir hópar hafa fengið og samið verði til allt að þriggja ára. Samningstíminn fari eftir innihaldi samningsins.  Fundarmenn voru tilbúnir í verkfallsátök komi til þess að tryggja verkafólki sambærilegar hækkanir og aðrir hópar hafa fengið á síðustu vikum og mánuðum. Hækkanir sem jafnframt taki mið af viðurkenndum framfærsluviðmiðum sem eru um 300 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling.

Þegar Samninganefnd Framsýnar hefur fullmótað kröfugerðina  verður hún sent Starfsgreinasambandi Íslands sem fer með samningsumboð félagsins. Starfsgreinasambandið hefur kallað eftir kröfum aðildarfélaga sambandsins áður en gengið verður á fund Samtaka atvinnulífsins og þeim gerð grein fyrir sameiginlegum kröfum sambandsins. Í lok fundar var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða sem endurspeglar umræðuna á fundinum.

„Framsýn, stéttarfélag skorar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna að tryggja félagsmönnum mannsæmandi laun í næstu kjarasamningum. Annað kemur ekki til greina.

• Kjör sem taki mið af viðurkenndum framfærsluviðmiðum.
• Kjör sem taki mið af hækkunum annarra launþega s.s. kennara, lækna og flugmanna.
• Kjör sem taki mið af methagnaði fyrirtækja s.s. í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, verslun og orkufrekum iðnaði.
• Kjör sem taki mið af ábendingum hjálparstofnana sem kalla eftir hækkun lægstu launa í ljósi þess að launin næga ekki fyrir nauðþurftum, hvað þá húsnæðiskostnaði.
• Kjör sem taki mið af hækkunum ríkisstofnana og sveitarfélaga á þjónustugjöldum sem í sumum tilfellum nema tugum prósenta.

Framsýn, stéttarfélag hvetur Samtök atvinnulífsins til að halda áfram áróðri gegn hækkun lægstu launa sem eru í dag kr. 201.317 á mánuði fyrir fullt starf. Málflutningur SA um að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur laun er beinlínis hlægilegur og gerir ekkert annað en að efla samtakamátt verkafólks enn frekar.

Dæmi:
Í síðustu kjarasamningum hækkuðu lægstu laun um kr. 9.750 í sérstakri láglaunaaðgerð. Á sama tíma hækkuðu laun forstjóra samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar að jafnaði um 300 þúsund og sumra millistjórnenda um allt að 600.000 krónur á mánuði.

Hvernig menn geta fundið það út að lægstu laun hafi hækkað umfram önnur laun er rannsóknarefni.

Framsýn, stéttarfélag trúir því og treystir að Samtök atvinnulífsins sjái ljósið og hafi skilning á kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að lægstu laun nægi fyrir framfærsluþörf heimilanna í landinu, burt með fátæktina og niðurlæginguna.“

Mikil einhugur var á fundinum í gær en fundurinn var fjölsóttur.

Það var setið út um allt.

Menn voru hugsi á fundinum og búa sig undir átök á vinnumarkaði í vetur.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, hafði framsögu um kjaramál á félagsfundinum. Hér koma nokkrar glærur sem hann var með á fundinum í gær.

Aðalsteinn kom víða við í framsögu um kjaramál. Hann kallaði eftir upplýsingum frá formanni Samtaka atvinnulífsins og forstjóra Icelandair Group um hækkanir hjá flugmönnum en hann hefur neitað að gefa þær upp.

Gott svigrúm væri til launahækkana hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi, verslun, ferðaþjónustu og iðnaði.

Greinilegt væri að Samtök atvinnulífsins héldu að verkafólk fylgdist ekki með fréttum af hækkunum annara hópa.

Síðustu kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ voru mikil mistök ekki síst í ljósi þeirra launahækkana sem aðrir hópar hafa fengið frá þeim tíma. Eðlilegt væri að kalla eftir leiðréttingum sagði formaður Framsýnar á fundinum.

Formaður talaði fyrir samstöðu aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Samstaðan væri forsendan fyrir góðum árangri í kjarabaráttu félagsmanna.

Fundarmenn óskuðu formanni félagsins velfarnaðar í viðræðum við Samtök atvinnulífsins á næstu vikum með von um góðan árangur.