Góður fundur sjómanna – ályktað

Hefð er fyrir því innan Framsýnar að halda aðalfund Sjómannadeildar Framsýnar rétt fyrir áramót. Fundurinn fór fram mánudaginn 29. desember og var góð mæting á fundinn sem fór vel fram. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var farið yfir helstu málefni sem tekin voru fyrir á 29. þingi Sjómannasambands Íslands sem haldið var í Reykjavík í byrjun desember.

Formaður deildarinnar, Jakob Gunnar Hjaltalín flutti skýrslu stjórnar, sjá meðfylgjandi ársskýrslu. Eftir yfirferð formanns um skýrsluna komu fram nokkrar fyrirspurnir frá fundarmönnum sem formaður svaraði. Þá urðu töluverðar umræður almennt um stöðu sjómanna og helstu málefni sem voru til umræðu á þingi Sjómannasambandsins í desember. Umræða varð um mikilvægi þess að Sjómannasambandið komi sínum áherslum betur á framfæri við fjölmiðla með öflugri heimasíðu og þá voru menn á því að skoða ætti ráðningu á upplýsingafulltrúa fyrir sambandið sem hefði það hlutverk jafnframt að koma skoðunum sjómanna á framfæri við fjölmiðla og til viðeigandi aðila.

Eftir miklar og góðar umræður um málefni sjómanna var samþykkt að taka undir ályktanir þings Sjómannasambandsins og álykta auk þess um fækkun sjómanna um borð í fiskiskipum og um starfsöryggismál sjómanna. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar samhljóða.

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar mótmælir harðlega tilhneigingu útgerðarmanna til að fækka í áköfnum skipa, ekki síst hásetum á kostnað öryggis sjómanna. Fundurinn hvetur til þess að opinber rannsókn fari fram á afleiðingum fækkunar í áhöfnum fiskiskipa vegna aukins vinnuálags sem af því leiðir.“

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar telur mikilvægt að ráðningarkjör fastráðinna- og afleysingamanna um borð í fiskiskipum verði betur tryggð í kjarasamningum. Núverandi staða er ólíðandi ekki síst hjá afleysingamönnum sem búa við mikið óöryggi.“

Eftir yfirferð um skýrslu stjórnar og afgreiðslu á ályktunum fundarins sem voru samþykktar samhljóða var gengið frá kjöri á nýrri stjórn. Fyrir lág að Haukur Hauksson og Stefán Hallgrímsson ætluðu ekki gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn deildarinnar. Eftirfarandi tillaga um nýja stjórn fyrir næsta starfsár var tekin fyrir og samþykkt:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður
Kristján Þorvarðarson varaformaður
Björn Viðar ritari
Snorri Gunnlaugsson meðstjórnandi
Kristján Hjaltalín meðstjórnandi

Formaður Sjómannadeildarinnar þakkaði þeim Stefáni og Hauki fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar í gegnum tíðina og óskaði jafnframt nýjum ungum stjórnarmönnum til hamingju með kjörið. Aðrir fundarmenn tóku undir með formanninum.

Að lokum gerði formaður deildarinnar fundarmönnum grein fyrir þingi Sjómannasambandsins. Hann sagði þingið hafa verið gott og mikið ályktað um helstu málefni sjómanna sem væru aðgengilegar inn á heimasíðu Framsýnar. Þá hefði Sævar Gunnarsson ekki gefið kost á sér áfram sem formaður sambandsins. Þess í stað hefði Valmundur Valmundarson verið kjörinn formaður sambandsins. Ástæða væri til að þakka Sævari fyrir vel unnin störf í þágu sjómanna um leið og Valmundi væri óskað velfarnaðar í starfi. Þá sagðist Jakob hafa verið beðinn um að koma á framfæri þakklæti frá Sjómannasambandinu til Framsýnar fyrir góðar móttökur en sambandið stóð fyrir formannafundi á Húsavík á síðasta ári. Eftir yfirferð formanns um þingið var opnað fyrir umræður. Nokkrir fundarmenn notuðuð tækifærið og spurðu formann út í málefni þingsins og önnur atriði er snerta kjör og starfsumhverfi sjómanna.

Undir liðnum Önnur mál, þakkaði Stefán Hallgrímsson öðrum stjórnarmönnum fyrir gott samstarf og sagðist ekki koma því lengur við að sitja í stjórn deildarinnar. Þá sagðist hann vilja til viðbótar þakka Framsýn fyrir vel unnin störf í þágu félagsmanna og nefndi sem dæmi samning félagsins við Flugfélagið Erni um sérstök afsláttarkjör á flugmiðum milli Reykjavíkur og Húsavíkur sem hann sagði koma mörgum félagsmönnum vel. Stefáni voru þökkuð hlý orð í garð Framsýnar auk þess sem aðrir fundarmenn tóku undir með Stefáni varðandi flugfargjöldin sem eru að koma verulega vel út fyrir félagsmenn um leið og samningur Ernis og Framsýnar tryggir flugsamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Húsavíkur. Fundarmenn töldu ástæðu til að klappa fyrir góðum fundi og starfi Sjómannadeildar Framsýnar. Í lok fundar var síðan boðið upp á hefðbundnar veitingar en fundurinn stóð yfir í þrjá tíma.

Hér má lesa ársskýrslu Sjómannadeildar Framsýnar árið 2014:

Kæru sjómenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska fundarmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Alls greiddu 95 sjómenn í Sjómannadeild Framsýnar á árinu 2014. Þá eru 15 sjómenn skráðir í deildina sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku. Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Stefán Hallgrímsson varaformaður, Kristján Þorvarðarson ritari og í varastjórn voru Björn Viðar og Haukur Hauksson. Stjórnin hélt tvo formlega stjórnarfundi á árinu. Formaður deildarinnar situr auk þess í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á árinu sem er að líða. Samkvæmt samkomulagi sá Sjómannadeildin um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2014 voru sjómennirnir Óskar Gunnar Axelsson og Ómar Sigurvin Vagnsson heiðraðir fyrir sjómennsku. Athöfnin fór fram á Fosshótel Húsavík. Hafi sjómenn tillögur um tilnefningar fyrir næsta sjómannadag eru þeir beðnir um að koma þeim á framfæri við stjórn deildarinnar eða formann Framsýnar. Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og LÍÚ hefur nú verið laus frá 31. desember 2010 sem er ekki líðandi. Á tímabilinu hefur þó verið samið um ákveðnar launahækkanir til sjómanna svo kauptryggingin haldi í við önnur laun hjá öðrum launþegum. Á þessari stundu er ekki vitað hvort eða hvenær samningar takast milli aðila. LÍÚ hefur lagt fram langan lista með kröfum um skerðingar á kjörum sjómanna. Eðlilega eru sjómannasamtökin ekki tilbúin að samþykkja það. Nú er búið að skipta um í brúnni, bæði hjá LÍU og eins hjá Sjómannasambandi Íslands. Spurning er hvort það skipti máli og liðki fyrir kjarasamningum. Tíminn einn mun leiða það í ljós. 29. þing Sjómannasambands Íslands fór fram í Reykjavík í byrjun desember. Formaður Sjómannadeildarinnar var fulltrúi Framsýnar á fundinum. Sævar Gunnarsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formannsstarfa hjá SSÍ og í hans stað var Valmundur Valmundsson frá Sjómannafélaginu Jötni í Vestmannaeyjum kosinn formaður sambandsins næstu tvö árin. Sjómannadeild Framsýnar þakkar Sævari fyrir hans störf í þágu sjómanna í gegnum tíðina um leið og Valmundi er óskað velfarnaðar í starfi formanns SSÍ. Þingið var starfssamt og skilaði 15 ályktunum um málefni sjómanna sem eru meðfylgjandi skýrslu stjórnar. Í fylgiskjali með skýrslunni er einnig að finna nöfn yfir þá sem kjörnir voru í trúnaðarstöður hjá sambandinu. Þar má sjá m.a. að formaður Sjómannadeildar Framsýnar hlaut áframhaldandi kjör í varasambandstjórn Sjómannasambandsins. Sjómannadeildin minnir sjómenn reglulega á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi. Þeir sem vilja fræðast frekar um úthlutunarreglur sjóðina er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar. Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi, reyndar er einn af þeim í 90% starfi og einn starfsmaður er í 33% starfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í hlutastörfum við umsjón á orlofsíbúðum og orlofshúsum sem eru í eigu félagsins. Þá er einn starfsmaður jafnframt í hlutastarfi á Raufarhöfn við að þjónusta félagsmenn Framsýnar í byggðalaginu. Framsýn heldur úti öflugu starfi og gerir sitt besta til að sinna félagsmönnum eftir bestu getu. Sem dæmi má nefna að afsláttarkjör sem félagsmenn hafa í gegnum Framsýn hjá Flugfélaginu Erni skiluðu félagsmönnum um 20 milljónum í sparnað á árinu 2014. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur reglulega fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem gefið er út reglulega á hverju ári. Í lokin vil ég þakka meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári. Sérstaklega vil ég þakka Hauki Haukssyni og Stefáni Hallgrímssyni fyrir samstarfið og þeirra störf fyrir deildina en þeir hafa ákveðið að láta af störfum sem stjórnarmenn í Sjómannadeild Framsýnar.

Jakob Gunnar HjaltalínSjómenn í  Framsýn fara yfir sín mál á aðalfundi Sjómannadeildar félagsins.

Jakob Gunnar var kjörinn formaður deildarinnar en hann hefur verið formaður um árabil. Tveir ungir menn komu inn í stjórn. Það er Snorri Gunnlaugsson sem hér er á mynd og Kristján Hjaltalín sem var á sjó svo hann komst ekki á fundinn. Snorri var ánægður með traustið.

Samþykkt var að álykta um málefni er sterta sjómenn, hér eru menn að leggja drög að ályktunum fundarins.

Brynjar tók þátt í fundinum líkt og hópur annarra sjómanna innan Framsýnar.