Tæplega 100 einstaklingar skráðir atvinnulausir í Þingeyjarsýslum

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var skráð atvinnuleysi á Íslandi í nóvember 3,3% en að meðaltali voru 5.430 atvinnulausir í nóvember og fjölgaði um 213 milli mánaða. Á Norðurlandi eystra var hlutfallslegt atvinnuleysi 3,2% sem er aðeins fyrir neðan meðaltalið. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum eða 5,1%.

Varðandi atvinnuleysið á Norðurlandi eystra þá voru flestir skráðir atvinnulausir í lok nóvember ´hjá Akureyrarkaupstað eða 317 einstaklingar. Á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum voru 99 skráðir atvinnulausir. Flestir í Norðurþingi eða 60, Langanesbyggð 18, Þingeyjarsveit 11, Skútustaðahrepp 8 og samtals voru skráðir 2 í Tjörneshreppi og Svalbarðshreppi.

Eins og fram hefur komið hefur Vinnumálastofnun lagt niður þjónustu fyrir atvinnuleitendur á Húsavík. Atvinnuleitendur hafa séð ástæðu til að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna til að lýsa yfir megnri óánægju sinni með lokunina enda glórulaus í alla staði.