Vísir hf. tapaði máli í Félagsdómi

Félagsdómur hefur kveðið upp dóm í máli Alþýðusambandsins, f.h. SGS vegna Framsýnar stéttarfélags gegn Samtökum atvinnulífsins vegna Vísis hf.

Tildrög málsins eru þau að Vísir hf., sem hefur rekið fiskvinnslur á fjórum stöðum á landinu, Grindavík, Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri tók í mars sl. ákvörðun um að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins til Grindavíkur. Fyrirtækið greindi frá þessu opinberlega með fréttatilkynningu og til Framsýnar stéttarfélags. Starfsmönnum Vísis á Húsavík bauðst að flytjast með vinnslunni til Grindavíkur en voru hvattir til þess að skrá sig á atvinnuleysisskrá meðan á flutningunum stæði.

Þann 1. apríl 2014 var starfsfólki Vísis hf. tilkynnt um langvinna rekstarstöðvun fiskvinnslunnar á Húsavík vegna hráefnisskorts sem tæki gildi að loknum fjórum vikum. Hinn 1. maí 2014 var starfsstöð Vísis hf. á Húsavík lokað, þannig að þá lagðist fiskvinnsla af, en einhverjir starfsmenn unnu að því að taka niður vélar og tæki sem flytja skyldi til Grindavíkur.

Framsýn stéttarfélag taldi ranglega að verki staðið í þessum efnum. Ekki væri um að ræða rekstarstöðvun í skilningi kjarasamnings. Verið væri að leggja niður starfsemi fyrirtækisins á Húsavík og til stæði að opna frystihús í Grindavík. Engum hráefnisskorti væri til að dreifa sem réttlætt gæti rekstrarstöðvun skv. lögum og kjarasamningum.

Vísir hf. varð ekki við áskorunum stéttarfélagsins þess efnis að standa rétt að málum gagnvart því starfsfólki sem um var að ræða og eftir atvikum segja viðkomandi upp með samningsbundnum uppsagnarfresti og bjóða nýtt starf á nýjum stað. Andmæli Framsýnar urðu þó til þess að þeim starfsmönnum sem kusu að vera áfram á Húsavík var sagt upp með samningsbundnum uppsagnarfresti. Þar sem fyrirtækið féllst ekki á sjónarmið Framsýnar þess efnis að ekki væri um að ræða rekstrarstöðvun í þeim skilningi sem kjarasamningurinn gerir ráð fyrir var mál höfðað í nafni ASÍ vegna SGS fyrir hönd Framsýnar fyrir Félagsdómi til þess að fá úr því skorið hvort framkvæmd Vísis hf. samrýmdist ákvæði gildandi kjarasamnings er tryggir verkafólki kauptryggingu í langvarandi rekstrarstöðvun.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að það sé forsenda þess að ákvæði 18.4.8.2 í kjarasamningi Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins verði beitt, að fyrirsjáanlegt sé að rekstarstöðvun vegna hráefnisskorts vari í a.m.k. tvær vikur en þó að hámarki sex mánuði. Dómurinn tekur fram að ekkert hafi komið fram um það í tilkynningu fyrirtækisins hversu lengi áætlað væri að rekstrarstöðvunin skyldi vara. Þá hafi og komið fram í framburði Aðalsteins Árna Baldurssonar formanns Framsýnar stéttarfélags að honum hafi verið tilkynnt á fundi með fyrirsvarsmönnum Vísis hf. þann 28. mars sl. að til stæði að leggja ætti niður alla starfsemi á Húsavík og lokað yrði á Húsavík þann 1. maí. Pétur Hafsteinn Pétursson framkvæmdastjóri Vísis hf. kom og fyrir dóminn og skýrði frá því að forsendur fyrir því að leggja niður starfsemi félagsins á Húsavík hefðu verið kynntar á stjórnarfundi félagsins 7. mars 2014 og ákvörðun um það verið tekin í lok mars. Ekki hafi staðið til að opna aftur vinnslu á Húsavík eftir það.

Það var því niðurstaða dómsins að það lægi fyrir að stöðvun vinnslu á Húsavík hafi aldrei átt að vera tímabundin eða standa aðeins meðan hráefnisskortur varði. Þvert á móti hafi verið ráð fyrir því gert áður en vinnslustöðvunin var tilkynnt að vinnsla myndi ekki hefjast aftur á Húsavík.

Var það því álit dómsins að túlka bæri ákvæði greinar 18.4.8.2 í kjarasamningi aðila á þann veg að vinnslustöðvun hlyti að vera tímabundin, þ.e. meðan hráefnisskortur varir en ákvæðinu yrði ekki beitt þegar fyrirsjáanlegt væri að starfsemi hæfist ekki að nýju að liðnum þeim sex mánaða hámarkstíma sem mælt er fyrir um í greininni. Ágreiningslaust var með aðilum að svo háttaði til um þá vinnslustöðvun sem um ræddi og breytti þá engu að mati dómsins þó stefndi leiddi í ljós að aflaheimildir hans hefðu ekki nægt til að halda uppi fullri starfsemi á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins út fisveiðiárið.

Féllst Félagsdómur því á kröfur stefnanda, Framsýnar og dæmdi að rekstrarstöðvun Vísis sem tilkynnt var þann 1. apríl og kom til framkvæmda þann 1. maí 2014 væri brot á ákvæði greinar 18.4.8.2 í kjarasamningi SGS og SA. Þá var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 400.000 kr. í málskostnað.

Fullnaðarsigur. Það ríkir mikil gleði innan Framsýnar með niðurstöðu Félagsdóms í máli Alþýðusambandsins, f.h. SGS vegna Framsýnar stéttarfélags gegn Samtökum atvinnulífsins vegna Vísis hf. Áhugasamir geta fengið niðurstöður Félagsdóms á Skrifstofu stéttarfélaganna.