Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær. Mörg mál voru á dagskrá fundarins s.s. kjara og atvinnumál. Þá var ályktað um ákvörðun Vinnumálastofnunar um að loka þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík, kjaramál og málefni Húsavíkurflugvallar. Ályktanirnar munu birtast á heimasíðunni í dag og á morgun.
Ályktun um lokun á svæðisskrifstofu Vinnumálastofnunar
„Framsýn, stéttarfélag átelur harðlega ákvörðun Vinnumálastofnunar um að loka starfsstöð stofnunarinnar á Húsavík frá og með 1. desember 2014.
Þrátt fyrir háværar kröfur heimamanna sáu Vinnumálastofnun, ráðherra félagsmála eða stjórnarþingmenn ekki ástæðu til að hlusta á raddir hagsmunaaðila sem töluðu fyrir mikilvægi þess að þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum yrði framhaldið á Húsavík.
Við þennan gjörning tapast eitt opinbert starf í Þingeyjarsýslum og flyst suður til Reykjavíkur á sama tíma og þess er getið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að stefnt sé að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
Ljóst er að Vinnumálastofnun stendur ekki lengur undir nafni þar sem stofnunin hefur tekið ákvörðun um að þjónusta aðeins hluta landsmanna með aðgengilegri þjónustu.
Framsýn unir því ekki og mun berjast fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að hún beiti sér fyrir því að atvinnuleysisskráning og vinnumiðlun færist frá Vinnumálastofnun til stéttarfélaganna þar sem fagleg vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi. Veikburða stofnun eins og Vinnumálastofnun hefur ekki lengur burði til að gegna hlutverki sínu, við því þarf að bregðast svo atvinnuleitendur fái lögboðna þjónustu.“
Það var langur og strangur stjórnarfundur í gær enda mörg mál á dagskrá fundarins. Hér eru þrjár stjórnarkonur að fara yfir málefni fundarins. Þrettán einstaklingar sitja í stjórn félagsins.